Keppni lokið hjá Emilíu á U12 Tennis Festival

Þá er keppninni lokið hjá Emilíu Eyvu á U12 Tennis Festival, hún þurfti því miður að gefa síðasta einliðaleikinn sinn í riðlakeppninni á móti E. Anikina vegna sársauka í öxl en hún gat aðeins gefið undirhandar uppgjöf í leiknum og var 6-1,1-0 undir þegar hún gaf eftir mikla baráttu. Mótið er hins vegar búið að vera mjög lærdómsríkt og var virkilega gaman að sjá hversu vel krakkar á aldrinum 11-12 ára geta spilað.

Í lok keppninnar var haldið,,Tennis Europe Junior School” fyrir keppendur, þjálfara og foreldra á mótinu. Thomas Hammerl, forstjóri Tennis Europe, kynnti tengingar milli stærstu tennissamtakanna í dag (“The Tennis Family”), ávinning þess að læra meira um næringu og vökvaþörf til að hafa getu til að iðka tennis á hæsta stigi og svo ráð fyrir foreldra ungra tenniskappa. Krakkarnir fengu síðan allir viðurkenningu fyrir þátttöku á mótinu og gjafapoka.

 

 

 

 

 

 

Thomas Hammerl spurði, ,,hversu margir hérna vilja vera atvinnumenn í tennis?” og þetta voru viðbrögðin!

Við viljum óska Emilíu til hamingju með árangurinn á mótinu en á þessu móti mætast bestu tennisspilarar á aldrinum 11-12 ára í Evrópu og því mjög vel af sér vikið fyrir Emilíu að fá boð á mótið. Því miður þurfti hún að berjast við sársauka í öxlinni en Emilía er jákvæð eftir mótið og þakklát fyrir reynsluna og er greinilegt að Emilía er með framtíðina fyrir sér í tennisheiminum og við erum spennt að fylgjast meira með henni.

Hér má sjá niðurstöður mótsins: https://www.tenniseurope.org/news/149835/Baranes-and-Vukovic-celebrate-12U-Festival-wins