Tennisspilari mánaðarins: Einar Óskarsson, des23′

Tennissspilari mánaðarins í Desember er Einar Óskarsson. Einar á langa sögu af tennis og hefur haft mikil áhrif á þróun íþróttarinnar á Íslandi. Einar er 68 ára í dag eða eins og hann orðaði það ,,bara 68 ára‘‘ og byrjaði fyrst að spila tennis þegar hann var 23 ára og var þá úti í Svíþjóð, sem sagt árið 1978. Aðspurður um hvernig það kom til sagði Einar frá því að finnskur vinnufélagi hans hafi boðið honum í fyrsta tímann og þaðan var ekki aftur snúið.

Þegar Einar var spurður um uppáhalds augnablikið hans úr tennis nefndi hann keppni sína á Algarve Open árið 1984 en í því samhengi sagðist hann ekki hafa getað neitt í tennis en að ferðin lifi í minningunni. Árin eftir þetta fór hann í fleiri keppnisferðir til Algarve með þáverandi landsliðsþjálfara Portúgal, Luris Sorsa, en þá fyrst sagðist Einar hafa lært eitthvað.

Aðspurður um hjá hvaða liði hann hefði æft sagði Einar frá því að hér á landi hafi hann alltaf spilað með TFK og var hann einn af stofnendum félagsins og þótti honum það afrek út af fyrir sig og nefndi sérstaklega að þar hefði hann kynnst góðum félögum sem hann hittir enn. Við frekari eftirgrennslan kom í ljós að Einar hafi verið formaður tennisdeildar ÍK sem mætti segja að hafi verið upphafið af Tennisfélagi Kópavogs. Einar er sagður hafa verið virkilega öflugur formaður og einnig hafi hann verið duglegur að hvetja börn og unglinga til að taka upp spaðann og byrja að æfa tennis.

Það var síðan áhugavert að heyra hvað Einari þótti best við tennis en nefndi hann þá, eins og margir, að það væri góð hreyfing og góður félagsskapur en honum þótti einnig sérstaklega mikilvægt að völlurinn væri umhverfisvænn og umgjörðin sömuleiðis og sagði að þá liði honum best. Einar sjálfur hefur líklega byggt einn umhverfisvænasta tennisvöll á landinu en hann byrjaði á honum sumarið 1988 í sumarbústaðnum sínum og stendur völlurinn þar enn þann dag í dag. Um völlinn sagði Einar: ,,þetta var fyrst leirvöllur með jökulleir sem þjappaðist mjög vel en svo settum við gervigras á leirinn með drenlögnum undir og það tókst bara vel og háar manir í kring með trjám til að brjóta vindinn.‘‘ Langmesta vinnu gerði Einar sjálfur og heyrst hefur að hann hafi gjarnan verið úti við mokstur og alls konar vinnu langt fram á nótt.

Völlurinn er mikið notaður og er fjölskyldan dugleg að fara upp í bústað og spila en nýlega átti kvennalandsliðið sömuleiðis leið þangað og spilaði á þessum virkilega fallega velli sem hluta af undirbúningi sínum fyrir Billy Jean King Cup.

Einar nefndi loks að honum þætti gaman að sjá framfarirnar hjá ungu krökkunum sem eru að koma upp og hélt því fram að með hækkandi sól myndi hann þurrka rykið af spaðanum en nýverið hefur hann einna helst sést við tennisvellina að fylgjast með dóttur sinni Önnu Soffíu sem er ein sigursælasta tenniskona Íslands.

Hvað varðar ráð til að verða betri í tennis greindi Einar frá því að góður tennisveggur sé alltaf góður þjálfari og að mikilvægt sé að hugsa um stílinn og fá allan líkamann í slögin eins og hjá honum Nadal í forhöndinni.

 

Uppáhalds skot: Góðir stoppboltar og lobbar klikka aldrei.
Uppáhalds tennisspilari? Djókarinn frá Serbíu.
Uppáhalds undirlag? Góður leirvöllur.
Uppáhalds meðspilari? Kjartan bróðir held ég.
Fyrsti þjálfari sem þú varst með mest? Markus Virtanen minn gamli góði vinnufélagi í 4 ár í Svíaríki í Norrköking við Brovíkin.

 

Hér má sjá Einar með Björn Borg – glöggir taka eftir því að Einari vantar annan skóinn.

Björn Borg og Einar fyrir utan Tennishöllina