Tennisspilari mánaðarins: Elvar Eiríksson, jan24′

Elvar og Albert bróðir hans

Tennisspilari mánaðarins í Janúar er Elvar Guðberg Eiríksson. Elvar er 26 ára gamall og byrjaði að spila tennis fyrir tæpu ári síðan. Aðspurður um hvað kom til með að hann byrjaði að spila tennis nefndi Elvar ,,Mig langar að gefa samstarfsfélaga mínum, Jonathan Wilkins þann heiður að hafa aukið áhuga minn á tennis sem varð svo til þess að ég fór á byrjendanámskeið’’. Elvar hélt síðan áfram að segja frá því að fyrsta æfingin hans hafi verið hjá Agli Sigurðssyni í mars árið 2023 og sagði hann Egil hafa kennt sér að hitta boltann. Í framhaldi af því æfði hann hjá Diönu Ivanchevu í nokkra mánuði en í dag æfir hann hjá Víkingi með Raj Bonifacius sem þjálfara. Í dag spilar Elvar yfirleitt þrisvar í viku, einu sinni á Víkingsæfingum en annars mætir hann oftast með bróður sínum Alberti en Elvar spilar sömuleiðis padel einu sinni í viku með vinnufélögum sínum.

 

Aðspurður um ráð til að vera betri í tennis sagði Elvar; …fyrir byrjendur mæli ég með því að taka byrjendanámskeið eða sækja sér einhverskonar kennslu til að byrja með. Mín reynsla er allavega sú að fólkið í Tennishöllinni er alltaf til í að aðstoða nýja tennisspilara að finna eitthvað sem hentar þeim. Fyrir lengra komna er erfitt fyrir mig að gefa einhver ráð, en að gefa sig allan fram hefur ekki klikkað.’’

Elvar talaði síðan um að tennissamfélagið á Íslandi væri lítið en öflugt, fyrir hans leyti var frábært að sjá hversu vel er tekið á móti nýjum spilurum sem vilja byrja í tennis. Helsta markmið Elvars í tennis er að hafa gaman og er hann alltaf spenntur að kynnast nýjum spilurum og sagði loks ,, ef einhver vill spila við mig þá mæli ég með því að gera það sem fyrst, áður en ég læri að taka uppgjafir.’’

 

Uppáhalds skot eða secret weapon: Er ekki komin svo langt í þessu en gott rallý sem endar með góðu skoti verður alltaf í uppáhaldi

Hvað finnst þér erfiðast við tennis? Þegar bróðir minn er að vinna mig

Uppáhalds tennisspilari? Erfitt val á milli Federer og Jonathan Wilkins

Hvað finnst þér best við tennis? Mér finnst fátt skemmtilegra en að spila utandyra í góðu veðri

Uppáhaldsmeðspilari? Væri flengdur ef ég myndi ekki nefna bróðir minn hérna

 

Jonathan Wilkins og Elvar

Við þökkum Elvari fyrir skemmtilegt viðtal og hlökkum til að sjá meira af honum í tennisheiminum.