Keppnin heldur áfram hjá Emilíu

Emilía hefur nú lokið keppnisdegi tvö í u12 Tennis Festival í Rafa Nadal akademíunni. Hún mætti virkilega erfiðum andstæðing í einliðaleiknum og mátti lúta í lægra haldi á móti Daniel Baranes, en leikurinn fór 6-1, 6-1. Fyrir leikinn hafði Emilía hitt sjúkraþjálfara vegna verks í öxlinni og var matið svo að hún gæti spilað leikinn en verkurinn truflaði þó uppgjöfina hennar sem hefði verið mikilvægt vopn í þessum leik. Emilía byrjaði ekki sérstaklega vel og var 5-0 undir þegar hún vann fyrstu lotuna sína en Baranes vann síðan næstu lotu og þar með settið, 6-1. Seinni settið byrjaði betur og Emilía vann fyrstu lotuna en Baranes var mjög einbeitt og tók næstu sex lotur.

Emilía og nafna hennar mættu Bernstein og Knight í tvíliðaleiknum. Sá leikur byrjaði mjög jafn og var staðan 4-4 í fyrsta settinu. Emilía og Emilía náðu því miður ekki fleiri lotum eftir það og töpuðu 6-4, 6-0. Andstæðingarnir voru virkilega sterkir upp við netið og gekk þeim einnig betur með uppgjöfina sem gerði þeim kleift að stjórna leiknum.

Í dag mætir Emilía Elizaveta Anikina frá Eistlandi um 13 leitið – hlekkur af stöðunni verður settur inn þegar nær dregur.

 

Daniel Baranes og Emilía Thygesen fyrir leikinn í gær.