Tennisspilari mánaðarins: Arnar Sigurðsson – okt23′

Tennisspilari mánaðarins

Í von um að kynnast tennissamfélaginu á Íslandi betur ákvað tennissambandið að hefja nýtt verkefni sem kallað verður tennisspilari mánaðarins. Október 2023 er fyrsti mánuður þessa verkefnis og þótti viðeigandi að ræða fyrst við Arnar Sigurðsson en árangur hans innan tennisíþróttarinnar er aðdáunarverður. Þegar litið er yfir feril Arnars má sjá að hann býr meðal annars yfir samtals 38 Íslandsmeistaratitlum – í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik og komst hann hæst á heimslista í 703 sæti í einliða og 518 í tvíliða árið 2007.

 

Aðspurður um hvenær Arnar byrjaði að spila tennis sagði hann frá því að hann hafi verið átta ára og vinur hans hafi boðið honum með sér á tennisæfingu og ákvað hann að slá til, vinurinn hætti þó fljótlega að mæta en Arnar hélt áfram. Á þessum tíma æfði Arnar tennis í Snælandsskóla með Ásdísi Ólafsdóttur sem þjálfara. Síðar æfði Arnar með TFK og greindi frá því að hann hafi verið með nokkra þjálfara í gegnum tíðina ,,…en fyrstu árin voru það meðal annars Hjálmar Aðalsteins, Óli Sveinsson, svo kom Anna Podolskaia, svo var ég mikið með Einari Sigurgeirssyni. Allt stórkostlegt fólk sem hjálpaði mér að komast þangað sem ég komst.”

Arnar greindi frá því að uppáhalds augnablikin hans frá tennisferlinum væru nokkur ,,…fyrsti Íslandsmeistaratitillinn, fyrsti ATP punkturinn og góðar minningar frá Davis Cup og háskólanum í Bandaríkjunum. En svona eftir ferilinn snýst þetta miklu meira um fólkið sem maður var með og tók þátt í þessu með manni.‘‘

Meistaramót 2011, -frá vinstri: Birkir Gunnarsson, Arnar Sigurðsson, Andri Jónsson (landsliðþjálfari karla) og Jón Axel Jónsson (landsliðsþjálfari kvenna).

Aðspurður um hver uppáhalds meðspilari hans var sagði Arnar: ,,Fyrstu titlarnir voru með tvíliða ,,legendinu‘‘ Davíð Halldórssyni, einnig held ég að við séum eitt af sigursælustu pörum Íslandssögunnar. Einnig verður að nefna Andra Jónsson, en með honum nældi ég í mín fyrstu stig á ATP stigalistanum og eins og frægt er orðið ,,best first team of the year‘‘ í Mónakó 2023.‘‘ Það var rétt hjá Arnari að hann og Davíð væru jú sigursælastir en unnu þeir tvíliðaleik karla níu ár í röð frá 1997-2005. Arnar vann síðan næstu sex árin líka en með öðrum meðspilurum, m.a. Andra Jónssyni og Raj K. Bonifacius.

Arnar nefndi loks að hann spili stundum tennis en alls ekki nógu oft en þykir honum ,,…gaman að fylgjast með úr fjarska hversu gott starf er verið að vinna í tennis á Íslandi.‘‘

Við þökkum Arnari fyrir svörin og hlökkum til að sjá hann meira í tennisheiminum.


Uppáhalds undirlag: Hard court

Uppáhalds tennisspilari: Roger Federer

Leynivopn: Bakhönd

Ráð til að vera betri í tennis: Trúa á verkefnið!