Arnar heiðraður fyrir framgöngu sína á Davis Cup á árshátíð TSÍ

Arnar Sigurðsson fær afhent "Commitment Award" Alþjóða tennissambandsins frá formanni TSÍ Helga Þór Jónassyni

Árshátíð Tennissambands Íslands var haldin síðastliðinn laugardag í sal ÍSÍ í Engjateigi. Þetta er í fjórða skiptið sem árshátíð TSÍ er haldin og er hún orðin ein af föstum viðburðum tennisársins. Um fimmtíu manns mættu á árshátíðina sem þótti takast vel.

Arnar Sigurðsson, besti tennisspilari Íslands fyrr og síðar var heiðursgestur kvöldsins. Formaður TSÍ, Helgi Þór Jónasson, veitti Arnari “Commitment award” Alþjóða tennissambandsins fyrir framúrskarandi framgöngu í Davis Cup liðakeppninni en tilefnið var 100 ára afmæli Davis Cup. Verðlaunin eru veitt þeim leikmönnum sem hafa sýnt mikla hollustu og spilað fyrir sína þjóð í a.m.k. 50 landsleikjum eða fleiri en hver landsleikur samanstendur af tveimur einliðaleikjum og einum tvíliðaleik.

299 tennisspilarar fá þessi verðlaun á árinu við hin ýmsu tækifæri og er Arnar þar í hópi með heimsfrægum tennisstjörnum á borð við Andre Agassi, Björn Borg, Boris Becker, John McEnroe, Stefan Edberg, Andy Roddick og Roger Federer svo einhverjir séu nefndir.

Arnar hefur spilað 54 landsleiki fyrir Íslands hönd á Davis Cup þar sem hann hefur unnið 39 leiki í einliðaleik en einungis tapað 12 og unnið 25 leiki í tvíliðaleik en tapað 19. Hann hefur unnið flesta leiki fyrir Ísland eða 64. Arnar hefur sigrað 39 einliðaleiki af 65 sigrum Íslands á Davis Cup.

Stórkostlegur árangur hjá þessum frábæra íþróttamanni.