Árshátíð TSÍ – Arnar og Sandra Dís valin tennisspilarar ársins

Sandra Dís og Arnar - Tennisspilarar ársins 2010

Árshátíð TSÍ fór fram síðastliðin föstudag á Café Easy í Laugardalnum og tókst með eindæmum vel. Þetta er annað árið í röð sem árshátíð TSÍ er haldin og því má segja að komin sé hefð á hana.

Arnar Sigurðsson úr Tennisfélagi Kópavogs var valin besti tennismaður ársins 2010. Þetta er í fjórtánda skipti sem Arnar hlýtur tilnefninguna og jafnoft hefur hann verið Íslandsmeistari utanhúss eða allt frá árinu 1997. Arnar var tvöfaldur Íslandsmeistari utanhúss á árinu í einliða og tvíliða.

Sandra Dís Kristjánsdóttir einnig úr Tennisfélagi Kópavogs var valin besta tenniskona ársins 2010. Þetta er í annað skiptið sem hún hlýtur þessa tilnefningu en hún hlaut hana einnig árið 2008. Sandra Dís varð þrefaldur Íslandsmeistari utanhúss á árinu og er þar með níundi tennisspilarinn til að ná þeim merka áfanga. Auk þess var hún tvöfaldur Íslandsmeistari innanhúss í einliða og tvíliða. Sandra Dís var ekki á staðnum til að taka við verðlaunum sínum þar sem hún er erlendis í námi og spilar fyrir bandarískt háskólalið.