Ísland tapaði 2-1 á móti Möltu

Birkir spilaði einliðaleik í dag

Íslenska karlalandsliðið tapaði fyrir Möltu í dag 2-1. Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland tapar á móti Möltu á Davis Cup frá upphafi. Þetta er líka í fyrsta skipti í 13 ár sem Arnar Sigurðsson spilar ekki fyrir Ísland á Davis Cup sem er gríðarlegur missir fyrir landsliðið. Arnar gat ekki gefið kost á sér að þessu sinni vegna anna í námi.

Andri Jónsson sigraði Bradley Callus 6-3 og 6-1 sem spilar númer 3 fyrir Möltu. Þetta er jafnframt fyrsti sigur Andra í einliðaleik á Davis Cup. Glæsilegur árangur hjá honum. Í hinum einliðaleiknum tapaði Birkir Gunnarsson á móti Matthew Asciak 6-2 og 6-1 sem spilar númer 1 fyrir Möltu. Matthew Asciak er númer 902 í heiminum í einliðaleik og 1227 í tvíliðaleik.

Í tvíliðaleik spiluðu Andri Jónsson og Leifur Sigurðarson á móti Matthew Asciak og Mark Gatt í hörkuleik sem fór í þrjú sett en þeir lutu í lægra haldi, 4-6, 6-3 og 3-6.

Ísland spilar við Andorra á morgun. Það er jafnframt síðasti leikur þeirra í riðlinum. En Andorra hefur tapað öllum sínum leikjum í riðlinum líkt og Ísland þannig að það gæti orðið jöfn og spennandi viðureign.