Íslenska karlalandsliðið farið út til San Marínó á Davis Cup

Frá vinstri: Raj K. Bonifacius, Birkir Gunnarsson, Rafn Kumar Bonifacius og Vladimir Ristic

Íslenska karlalandsliðið í tennis hélt til San Marínó í morgun þar sem það keppir í Davis Cup í 3.deild Evrópuriðils, en þetta er fimmta árið í röð sem Ísland keppir í þeirri deild. Þetta er átjánda skiptið í röð sem Ísland keppir á Davis Cup eða allt frá árinu 1996.

Tveir nýliðar eru í íslenska landsliðinu að þessu sinni og eru að keppa á Davis Cup í fyrsta sinn en það eru þeir Rafn Kumar Bonifacius (19 ára) og Vladimir Ristic (16 ára). Auk þeirra skipa liðið núverandi Íslandmeistari utanhúss Birkir Gunnarsson (22 ára) sem er að keppa á Davis Cup fimmta árið í röð, og núverandi Íslandsmeistari innanhúss, Raj K. Bonifacius sem er spilandi þjálfari. Raj er gríðarlega reynslumikill en þetta er í tíunda skiptið sem Raj keppir á Davis Cup. Raj og Rafn Kumar eru feðgar og er þetta í fyrsta sinn sem feðgar keppa fyrir Ísland á Davis Cup.

Liðið mun æfa með San Marínó liðinu í fjóra daga áður en keppni hefst en keppt er á leirvöllum utandyra og því gott fyrir íslensku keppendurna að venjast undirlaginu. Keppni hefst miðvikudaginn 22.maí og lýkur laugardaginn 25.maí.

Fyrir 10 árum síðan sigraði Ísland sinn riðil í Davis Cup þegar það var haldið í San Marínó. Þá keppti Ísland á móti Möltu, San Marínó, Rúanda og Kenýu. Ísland hefur unnið Davis Cup riðilinn þrisvar sinnum (2008-Armeníu, 2003-San Marínó og 1999-Kýpur).