Alþjóðlegi tennisdagurinn haldinn hátíðlegur

Alþjóðlegi tennisdagurinn var haldinn hátíðlegur í Tennishöllinni í Reykjavík í gær. Hópur nemenda úr Klettaskóla tók þátt í alþjóða tennisdeginum ásamt unglingalandsliði Íslands í tennis. Dagurinn var settur þar sem fulltrúar úr báðum hópum gengu með íslenska fánann undir þjóðsöngnum. Að loknum stuttum ræðum þáðu fulltrúar Klettaskóla gjafir frá Tennissambandi Íslands, tennisspaða og tennisbolta. Dagskráin hófst svo undir stjórn Luigi Bartolozzi, tennisþjálfara og starfsmanns Klettaskóla þar sem landsliðsfólkið sýndi nemendum Klettaskóla íþrótt sína ásamt því að leiðbeina og taka þátt í æfingum og leikjum. Í lokin fengu allir flatbökur og gos. Umfjöllun og myndir frá deginum má einnig sjá inn á klettaskoli.is.

Alþjóðlegi tennisdagurinn var haldinn út um allan heim og hægt er að sjá fyndna og skemmtilega uppákomu sem átti sér stað í góðgerðaleik í New York þar sem spænski tenniskappinn Rafael Nadal sótti leikarann Ben Stiller í áhorfendastúkuna og fékk hann til liðs við sig í tvíliðaleik. Argentínumaðurinn Juan Martin Del Porto var andstæðingur Nadal í leiknum og fékk til liðs við sig unga stúlku úr áhorfendastúkunni og spiluðu þau nokkur stig.

Myndbandið er hægt að sjá hér.