Birkir og Iris kjörin tennismaður og tenniskona ársins

Iris Staub - tenniskona ársins 2012

Iris Staub og Birkir Gunnarsson hafa verið valin tenniskona og tennismaður ársins af Tennissambandi Íslands fyrir árið 2012.

Iris varð þrefaldur Íslandsmeistari á árinu, í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik. Þetta er í sjöunda skiptið sem hún verður Íslandsmeistari í einliðaleik og fjórða sinn sem hún sigrar þrefalt. Iris bjó í byrjun ársins í Suður-Afríku þar sem hún keppti fyrir hönd Norður-Gauteng fylkis í suður-afríska meistaramótinu og tryggði sér þar ásamt liði sínu Suður-Afríska meistaratitilinn. Þar með komst hún í 9. sæti suður-afríska listans í flokki 30-35 ára.
Um þessar mundir æfir hún og keppir fyrir Grün-Weiß Nikolassee í Berlín samhliða doktorsnámi og vermir hún nú 34. sæti þýska listans í flokki 30-35 ára. Á síðustu Smáþjóðaleikum vann Iris ásamt Söndru Dís Kristjánsdóttur til bronsverðlauna í tvíliðaleik kvenna. Hún stefnir á þátttöku fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum á næsta ári.

Birkir, sem er tvítugur, varð Íslandsmeistari karla í tennis bæði innanhúss- og utan á árinu. Einnig sigraði hann á meistaramóti Tennissambands Íslands. Birkir spilaði fyrir landslið Íslands á Davis Cup í Búlgaríu sem er heimsmeistaramót landsliða í tennis.

Birkir Gunnarsson tennismaður ársins 2012

Síðastliðið sumar lék hann fyrir þýska tennisklúbbinn TH Vaihingen í Þýskalandi þar sem hann var með 75% vinningshlutfall í einliðaleik.
Birkir tók þátt í þremur opnum tennismótum í Danmörku á árinu þar sem m.a. spiluðu margir af bestu tennisleikurum Dana, ásamt fleiri góðum spilurum. Sigraði hann í tveimur þessara móta og varð annar í einu þeirra. Birkir hyggur á nám á Ameríku þar sem hann getur haldið áfram að þróast sem tennisspilari.

Efnilegustu ungu tennisspilarar ársins 2012 voru valdir í kvennaflokki Hjördís Rósa Guðmundsdóttir og karlaflokki Vladimir Ristic.

Hægt er að sjá yfirlit yfir alla sem hafa verið kjörin tennismaður og tenniskona ársins frá upphafi hér og efnilegustu tennisspilarana hér.