Ísland hefur lokið keppni á Junior Davis Cup

Keppendur í forkeppni Junior Davis Cup U18 í Slóveníu 2012

Í fyrradag á Junior Davis Cup keppti Hinrik við Oleg Dovgan frá Úkraínu sem er númer 307 á heimslista alþjóðalega tennissambandsins (ITF) í 18 ára flokki. Hinrik var inni í öllum lotunum og vann u.þ.b. 20 stig í leiknum sem tapaðist þó 6-0 og 6-0.

Rafn Kumar keppti síðan við Marat Deviatirov frá Úkraínu sem er númer 67 á heimslistanum og fór sá leikur 6-0 og 6-2. Vel gert hjá Rafni að sækja sér 2 lotur á móti þessum erfiða andstæðingi.

Rafn Kumar og Hinrik

Þeir félagar kepptu svo í tvíliðaleik við Kalyuzhny, sem er númer 176 á heimslistanum, og fyrrnefndan Dovgan frá Úkraínu og fór sá leikur 6-0 og 6-2 fyrir andstæðingunum. Gott hjá Hinrik og Rafni að fá 2 lotur á móti þessum sterku andstæðingum en báðar uppgjafarlotur Hinriks í seinna setti heppnuðust vel í þessum leik, þannig að eftirleikurinn varð auðveldari.

Í gær kepptu þeir félagar svo við Bosníu Hersegóvinu. Hinrik keppti við Nernan Fatic sem er númer 1712 á heimslistanum og fór sá leikur 6-0 og 6-0. Hinrik vantaði herslumuninn á að sækja sér lotur en hann átti þrisvar sinnum góða möguleika á því.

Rafn Kumar keppti síðan við Patrik Jovanovic sem er númer 839 á heimslistanum og fór sá leikur 6-0 og 6-1. Góður árangur hjá Rafni.

Í tvíliðaleik kepptu þeir svo við Dennis Porcic sem er númer 1124 á heimslistanum og Jovanovic og fór sá leikur 6-1 og 6-2. Vel gert hjá þeim að ná þremur lotum af Bosníustrákunum þar sem ein uppgjafarlota skilaði sér vel yfir hjá Rafni og tvær hjá Hinrik sem gerði það að verkum að loturnar unnust.

Lykilatriði í keppni á móti svona sterkum andstæðingum er að slá uppgjafarlotur sínar inn og það með krafti og klókindum til þess að eiga möguleika á auðveldari stigum en ella, þar sem andstæðingurinn á þessu getustigi er öllu vanur.

Ísland hefur sem sagt lokið keppni að þessu sinni en Bretland og Slóvakía komust áfram til Feneyja í 8 liða úrslitin úr okkar riðli, en 8 efstu lönd í þessum fjórum forkeppnum keppa til úrslita í Feneyjum í næstu viku.