Íslenskur þjálfari kominn með hæstu þjálfunargráðu í tennis

Jón Axel Jónsson

Jón Axel Jónsson, tennisþjálfari og landsliðsmaður til margra ára lauk í febrúar fyrr á árinu hæstu gráðu sem tennisþjálfari getur hlotið í Bandaríkjunum. Tennissamband Bandaríkjanna og klúbbar þar í landi krefjast þess að allir sem vilja kenna tennis verða að vera með USPTA próf.

Hægt er að fá fjórar mismunandi gráður í þessu prófi sem fer eftir heildarárangri á öllum sviðum (written exam, grip exam, playing test, Group/private lesson & Stroke analysis). Professional 1(P1) er hæsta gráðan á meðan professional 4(P4) er sú lægsta. Jóni Axel tókst að ná P1 sem að felur í sér ævilangan styrk hjá Head tennisvörum og Penn boltum og einnig frían aðgang að hinum ýmsu tennis vefsíðum á netinu. Einnig fá allir sem eru með USPTA prófið tryggingu upp á 9 milljónir dollara, ef að eitthvað slys ætti sér stað á tennisvellinum.

„Ég var búinn að taka ITF þjálfara prófið fyrir nokkrum árum síðan, en þegar ég flutti til Orlando eftir að ég kláraði námið hjá King College í Tennessee þá kom í ljós að það var bara engan veginn nóg til að geta fengið góða þjálfarastöðu, þannig að ég skellti mér bara í þennan pakka sem að var nú reyndar ansi strembinn, sérstaklega Stroke Analysis parturinn og skriflega prófið. Launin úti hjá mörgum klúbbum fara eftir gráðunni þannig að ég bara lærði undir þetta eins og brjálæðingur. Svo er nú reyndar hægt að fá Master Professional gráðu líka, en hún krefst víst a.m.k 20 ára reynslu, mikla góðgerðarstarfsemi, og að sjálfsögðu P1. Kannski maður sæki um það í framtíðinni einhverntímann, þegar ég er orðinn gamall“, sagði Jón Axel.