Sandra Dís og Raj Íslandsmeistarar innanhúss

Sandra Dís Kristjánsdóttir úr Tennisfélagi Kópavogs og Raj Kumar Bonifacius úr Víkingi urðu Íslandsmeistarar innanhúss í meistaraflokki karla og kvenna. Íslandsmótinu lauk á miðvikudaginn en hafði þá staðið þar yfir frá laugardegi. Mjög góð þátttaka var í mótinu eða yfir 120 þátttakendur sem stóðu sig allir með stakasta prýði.

Mótstjórarnir og landsliðsmennirnir Leifur og Andri ásamt nokkrum verðlaunahöfum

Úrslitaleikir í meistaraflokki karla og kvenna voru spilaðir á miðvikudeginum og fjöldi áhorfenda sem lagði leið sína á völlinn.

Raj sigraði Andra Jónsson úr Badmintonfélagi Hafnafjarðar í hörkuspennandi úrslitaleik, í þremur settum 6-0, 4-6 og 7-5. Leikurinn stóð yfir í rúma þrjá tíma og þótti mjög spennandi og skemmtilegur. Raj endurheimti þá Íslandsmeistaratitil sinn innanhúss frá árinu 2008 en Arnar varð Íslandsmeistari innanhúss í fyrra einmitt með sigri á Raj í úrslitaleiknum. Þess má geta að Arnar tók ekki þátt að þessu sinni.

Sandra Dís varði Íslandsmeistaratitil sinn með öruggum sigri á Eirdísi Heiði Chen Ragnarsdóttur úr Fjölni í úrslitaleiknum. Hún vann í tveimur settum, 6-2 og 6-0.

Það voru margir ungir og efnilegar tennisspilarar sem tóku þátt í mótinu. Einn af yngstu keppendunum, Sofia Sóley Jónasdóttir sem er einungis 7 ára að aldri vann mini tennismótið (sem er fyrir 10 ára og yngri). Einnig vann hún 10 ára og yngri stelpur og var í fyrsta sæti í B-keppni 12 ár og yngri stelpur. Mikið efni þar á ferð enda hefur hún ekki langt að sækja hæfileikana þar sem hinn góðkunni Jónas Páll, framkvæmdastjóri Tennishallarinnar, og Mia, tvöfaldur Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna, eru foreldrar hennar. Einnig eru margar efnilegar stelpur sem eru aðeins eldri, eins og Hjördís Rósa Guðmundsdóttir sem vann 12, 14 og 16 ára yngri stelpur þrátt fyrir að vera aðeins 12 ára gömul.

Í strákaflokkunum eru líka margir góðir og efnilegir tennisspilarar eins og Rafn Kumar Bonifacius sem vann bæði 16 og 18 ára og yngri og spilaði einnig í meistaraflokki karla með góðum árangri.

Úrslit úr mótinu má sjá hér.

Þess má geta að enn hefur ekki verið keppt í tvíliða- og tvenndarleik þar sem ekki gafst tími til að halda það á settum tíma vegna mikillar þátttöku í mótinu. Nánari tímasetning verður auglýst síðar.

Mótstjórarnir, Andri Jónsson og Leifur Sigurðarson, voru að vonum ánægðir með mótið sem tókst frábærlega og þakka öllum þeim sem tóku þátt kærlega fyrir þátttökuna. Þeir segja að framtíðin sé björt í tennis á Íslandi, margir ungir og efnilegar tennisspilarar á uppleið.