Mennta- og barnamálaráðuneytið, í samstarfi við ÍSÍ, UMFÍ og Samband íslenskra sveitarfélaga, boðar til ráðstefnunnar Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi mánudaginn 20. nóvember kl. 9-16 í Gullteig á Grand Hótel Reykjavík og í streymi. Á ráðstefnunni verða kynnt áform um eflingu afreksíþróttastarfs á Íslandi með bættri aðstöðu, stuðningi og réttindum fyrir afreksíþróttafólk.
Dagskrá hefst með ávarpi forseta Íslands, forsætisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra. Að lokinni umfjöllun um framtíðarsýn mun þjóðþekkt afreksíþróttafólk greina frá sinni afstöðu. Fjallað verður um hvernig skapa megi umgjörð fyrir unga íþróttaiðkendur til að vaxa og dafna, jafnt í þéttbýli og dreifbýli. Loks verður farið yfir hvernig hámarka megi árangur og m.a. horft út fyrir landsteinana í þeim tilgangi.
Ráðstefnugestum gefst kostur á að varpa spurningum sínum fram fyrir pallborðsumræður og taka þátt í hópvinnu þar sem farið verður yfir ýmis álitamál. Endurgjöf þátttakenda mun nýtast starfshópi mennta- og barnamálaráðherra um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks í stefnumótun á sviði afreksíþrótta. Mennta- og barnamálaráðuneytið hvetur öll áhugasöm um árangur og afreksstarf til að mæta.
Ráðstefnan er öllum opin. Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að skrá sig. Skráningarfrestur er til og með 16. nóvember.