WOW Air Open Evrópumótið í tennis dagana 24. mars – 6. apríl 2018

fyrir 14 ára og 16 ára og yngri

Nýhafið er Wow Air Open Evrópumótið í tennis í Tennishöllinni í Kópavogi. Mótið er haldið af TSÍ í samvinnu við tennisfélögin á Íslandi. Þetta er níunda árið í röð sem TSÍ heldur mót af þessu tagi í evrópumótaröð unglinga.

Alls munu um 200 erlendir gestir koma í Kópavoginn út af mótinu alls staðar frá Evrópu.  Spilað er í einliðaleik og tvíliðaleik en einnig er spilað í svokallaðri B-keppni fyrir þá sem tapa í fyrstu umferð í einliðaleik.

Alls keppa 8 keppendur frá Íslandi í mótinu en það eru þau Eliot Roberted, Arnaldur Birgisson, Pétur Ingi Thorsteinsson, Sofia Sóley Jónasdóttir frá Tennisfélagi Kópavogs, Eva Diljá Arnþórsdóttir frá Tennisdeild Víkings, Brynjar Sanne Engilbertsson frá Tennisdeild BH, Eydís Magnea Friðriksdóttir Tennisdeild Fjölnis og Óðinn Atherton frá Hafna- og Mjúkboltafélagi Reykjavíkur.

Keppt er alla daga vikunnar og byrja leikir kl 8.00 alla daga og er keppt til 18.30 í öllum flokkum. Úrslitaleikir í einliðaleik 14 ára og yngri eru svo spilaðir á föstudaginn kl 9.00 og keppt er í tvíliðalek strax að þeim loknum og sama dagskrá er í gangi í næstu viku þegar spilað verður í flokki 16 ára og yngri.

Allir tennisáhugamenn eru velkomnir að koma og horfa á.