Kvennalandsliðið farið út til Svartfjallalands á Fed Cup

Íslenska kvennalandsliðið frá vinstri: Anna Soffia, Hjördís Rósa, Boris þjálfari, Hera Björk og Iris fyrirliði

Íslenska kvennalandsliðið kom til Svartfjallalands síðastliðin föstudag þar sem þær munu keppa á Fed Cup sem hefst á morgun. Ísland keppir í 3.deild Evrópu/Afríku riðils en það hefur alltaf spilað í þeirri deild. Þetta er í ellefta skiptið sem Ísland sendir lið á Fed Cup en það tók fyrst þátt árið 1996.

Íslenska landsliðið er að þessu sinni skipað fjórum leikmönnum. Þær eru: Anna Soffia Grönholm, Hera Björk Brynjarsdóttir, Hjördís Rósa Guðmundsdóttir og Iris Staub sem er jafnframt fyrirliði liðsins. Anna Soffia, Hera Björk og Hjördís Rósa eru allar að keppa í annað skipti á Fed Cup en þær kepptu í fyrsta skipti í fyrra. Iris býr að mikilli reynslu þar sem hún er að keppa í sjöunda skiptið á Fed Cup og hefur keppt oftast á Fed Cup af öllum landsliðskonum Íslands. Hún var í landsliðinu sem keppti í fyrsta skipti árið 1996 auk þess sem hún keppti árin 1997, 2000, 2006, 2008 og 2009 en Ísland hefur ekki alltaf sent lið út á Fed Cup frá því það hóf þátttöku. Boris Kaminski, sem er jafnframt eiginmaður Irisar, er þjálfari liðsins.

Liðið hefur notað tímann frá því á föstudaginn til æfinga en keppt er á leirvöllum og því gott fyrir stelpurnar að hafa tíma til að venjast undirlaginu. Keppni hefst á morgun, þriðjudaginn 14.apríl, og stendur yfir fram á laugardaginn 18.apríl.