Hjördís Rósa og Raj Íslandsmeistarar innanhúss 2013

Sigurvegarar í meistaraflokki karla. Raj (1.sæti) og Birkir (2.sæti)

Íslandsmót innnahúss lauk í gær í Tennishöllinni í Kópavogi. Þáttaka í mótinu var góð eða um 80 manns sem tóku þátt í einum eða fleiri flokkum.

Hjördís Rósa Guðmundsdóttir úr Badmintonfélagi Hafnafjarðar og Raj K. Bonifacius úr Tennisdeild Víkings urðu tvöfaldir Íslandsmeistarar innanhúss í einliða- og tvíliðaleik í meistaraflokki. Hjördís Rósa varð jafnframt Íslandsmeistari í einliðaleik 16 ára og yngri og 18 ára og yngri en hún er einungis 15 ára gömul. Þetta er þriðja árið í röð sem Hjördís Rósa er Íslandsmeistari innanhúss í meistaraflokki kvenna.

Hjördís Rósa sigraði Önnu Soffíu Grönholm úr Tennisfélagi Kópavogs 6-4 7-6(3) í hörkuspennandi úrslitaleik í einliðaleik kvenna. Þær spiluðu svo saman í tvíliðaleik kvenna og sigruðu þær Heru Björk Brynjarsdóttur og Heklu Mariu Oliver í úrslitaleiknum 6-0 og 6-0.

Sigurvegarar í meistaraflokki kvenna. Hjördís Rósa (1.sæti), Hera (3.sæti) og Anna Soffia (2.sæti) )

Raj hafði betur gegn Birki Gunnarssyni úr Tennisfélagi Kópavogs í úrslitaleiknum í einliðaleik en leikurinn var afar spennandi og fór í þrjú sett. Raj sigraði fyrsta settið 7-5 en Birkir kom sterkur til baka og vann næsta settið 6-3. Því þurfti að spila þriðja settið sem Raj sigraði í oddalotu (tie-break) 8-6. Í tvíliðaleik karla sigruðu feðgarnir Raj og Rafn Kumar Bonifacius þá Magnús Gunnarsson og Jón Axel Jónsson í úrslitaleiknum 6-4 og 6-3.

Ekki var keppt í tvenndarleik í meistaraflokki að þessu sinni.

Öll önnur úrslit í mótinu má sjá hér.

Sigurvegarar í tvíliðaleik karla. Rafn og Raj (1.sæti), Magnús og Jón Axel (2.sæti)