Birkir og Hjördís Rósa Íslandsmeistarar innanhúss 2012

Birkir og Hjördís Rósa Íslandsmeistarar innanhúss 2012

Íslandsmóti innanhúss lauk síðastliðin mánudag í Tennishöllinni í Kópavogi. Í meistaraflokki kvenna mættust Hjördís Rósa Guðmundsdóttir úr Badmintonfélagi Hafnafjarðar og Anna Soffia Grönholm úr Tennisfélagi Kópavogs. Hjördís Rósa sigraði 6-3 og 6-1 og varð þar með Íslandsmeistari innanhúss í einliðaleik kvenna annað árið í röð. Hún varð einnig Íslandsmeistari í tvíliðaleik kvenna ásamt Önnu Soffiu og í tvenndarleik ásamt Jóni Axeli Jónssyni úr Tennisfélagi Kópavogs. Þá eru ótaldir Íslandsmeistaratitlar í einliðaleik í aldursflokkunum 14, 16 og 18 ára og yngri og í tvíliðaleik í 14 ára og yngri. Hjördís varð því sjöfaldur Íslandsmeistari ef allt er talið en hún er einungis þrettán ára gömul. Hjördís og Anna Soffia eru í nokkrum sérflokki og kepptu til úrslita í öllum fjórum flokkunum en Anna er ári yngri en Hjördís.

Í meistaraflokki karla mættust hinn gamalreyndi Raj K. Bonifacius úr Tennisdeild Víkings og Birkir Gunnarsson úr Tennisfélagi Kópavogs. Birkir sigraði í hörkuleik 0-6, 7-5 og 6-2 og landaði þar með sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli innanhúss í meistaraflokki. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem Birkir sigrar Raj á móti.

Prúðustu leikmenn mótsins: Gunnar Pétur og Sofia Sóley

Í tvíliðaleik kvenna spiluðu Hjördís Rósa og Anna Soffia á móti Heru Björk Brynjarsdóttir úr Tennisdeild Fjölnis og Rögnu Sigurðardóttir úr Tennisfélagi Kópavogs. Hjördís Rósa og Anna Soffia sigruðu 9-1 og urðu þar með Íslandsmeistarar í tvíliðaleik kvenna.

Í tvíliðaleik karla spiluðu Magnús Gunnarsson úr Tennisfélagi Kópavogs og Raj K. Bonifacius úr Tennisdeild Víkings á móti Birki Gunnarssyni úr Tennisfélagi Kópavogs og Rafni Kumari Bonifacius úr Tennisdeild Víkings. Magnús og Raj sigruðu 9-5 og urðu þar með Íslandsmeistarar í tvíliðaleik karla. Þess má geta að Magnús og Birkir eru bræður og Raj og Rafn eru feðgar þannig að það má segja að það hafi verið fjölskylduslagur.

Í úrslitaleik tvenndar sigruðu Hjördís Rósa Guðmundsdóttir og Jón Axel Jónsson þau Hinrik Helgason og Rögnu Sigurðardóttir 9-3.

Gunnar Pétur Daðason og Sofía Sóley Jónasdóttir voru útnefnd sem prúðustu leikmenn mótsins.

Öll önnur úrslit má sjá hér fyrir neðan:

Meistaraflokkur

Barna- og unglingaflokkar

Öðlingaflokkar