Íslandsmóti innanhúss lauk í gær með úrslitaleikjum í meistaraflokki karla og kvenna. Þá voru krýndir nýir Íslandsmeistarar bæði í karla- og kvennaflokki. Rafn Kumar Bonifacius úr Tennisdeild Víkings varð Íslandsmeistari innanhúss í karlaflokki og Anna Soffia Grönholm úr Tennisfélagi Kópavogs varð Íslandsmeistari innanhúss í kvennaflokki.
Í meistaraflokki karla mættust feðgarnir Raj K. Bonifacius og Rafn Kumar Bonifacius. Raj byrjaði leikinn betur og komst í 3-1 í fyrsta setti en þá tók Rafn Kumar við sér og vann næstu sjö lotur í röð og fagnaði að lokum sigri með því að sigra í tveimur settum 6-3 og 6-3. Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Rafn Kumars í meistaraflokki í einliðaleik innanhúss.
Í meistaraflokki kvenna mættust Anna Soffia Grönholm og Hjördís Rósa Guðmundsdóttir úr Badmintonfélagi Hafnafjarðar Íslandsmeistari innan- og utanhúss 2013, í hörkuleik sem fór í þrjú sett.
Hjördís Rósa vann fyrsta settið 6-4 en Anna Soffia kom sterk tilbaka og vann annað settið 6-3. Í þriðja settinu var Anna Soffia komin í 5-2 en Hjördís Rósa átti þá sterkan kafla og komst í 6-5. Anna Soffia jafnaði hins vegar í 6-6 og sigraði svo oddalotuna 8-6 og fagnaði því Íslandsmeistaratitlinum.
Fyrr um daginn mættust þær Anna Soffia og Hjördís Rósa í úrslitum 16 ára og yngri og þar hafði Hjördís Rósa betur 9-2.
Í tvíliðaleik karla í meistaraflokki urðu feðgarnir Rafn Kumar Bonifacius og Raj K. Bonifacius úr Víkingi Íslandsmeistararar. Þeir sigruðu þá þeir Hinrik Helgason og Magnús Gunnarsson úr Tennisfélagi Kópavogs í tveimur settum 6-0 og 6-1 í úrslitaleiknum.
Keppni hefur ekki verið lokið í meistaraflokki í tvíliðaleik kvenna og tvenndarleik. Íslandsmótið mun klárast núna á næstu 12 dögum. Hægt er að fylgjast með öllum úrslitum á mótinu með því að smella á neðangreinda tengla.