Vel heppnað dómaranámskeið!

Hér er samantekt frá þriggja daga dómaranámskeiðinu á vegum TSÍ sem lauk síðasta föstudag, þann 20. október.

Þátttakendur á námskeiðinu voru Andri Mateo Uscategui Oscarsson, Gabriela Piech, Gabriela Dimitrova Tsvetkova, Hannes Þórður Hafstein, Hildur Helga Sigurðardóttir, Lára Björk Hall, Mariami Eradze, Milena Piech og Þorri Orrason. Þau eru öll á aldrinum 14-15 ára og eru að æfa og keppa í tennis.

Dómara námskeiðið fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal (bóklegt) og í Tennishöllinni í Kópavogi (verklegt) og kennsluefni frá Alþjóða Tennissambandinu (ITF) var nýtt. Þátttakendur námskeiðsins fengu allir tennisdómaramöppu með tveimur skorkortum, línudómara leiðbeiningum og reglubók sem var notuð á námskeiðinu.

Á fyrsta degi var farið yfir hlutverk og tegundir tennisdómara, valla- og netmælingar, stigagjöf og sýnd myndbönd til að vekja athygli á hinum fjölmörgu uppgjafareglum. ITF uppfærði dómara kennslugögn í fyrra – með fleiri myndum og myndböndum, og talsvert betri útskýringum þegar kemur að hlutverki línudómara og bætt við betri lýsingum um hvaða þættir skiptir mestu máli til að vera góður línudómari.

Á öðrum degi var farið yfir glærur og myndbandsefni sem tengjast ákvörðunum stóldómarans ásamt samskiptum milli línudómara og stóladómara þegar þau eru að skoða boltamerkingar (eingöngu á leir völlum) og hegðunarbrot. Nýju kennslugögnin eru með fleiri upptökur frá tennisleikjum og auðveldara er að sjá hvert hlutverk  yfirdómarans er og hverju hann ber ábyrgð á þegar það kemur að samskiptum milli leikmanna, stóldómara og yfirdómara. Það var farið yfir reglurnar fyrir leiki sem eru kepptir án stóldómara og hvað felst í því að vera góður “roving” dómari á hliðalínunni. Þátttakendur fengu líka tækifæri til að horfa á hjólastólatennis og nokkrar sérreglur sem eru notaðar í keppni þeirra.

Þriðji dagurinn var verklegur og fór fram í Tennishöllinni. Þátttakendur voru klæddir í tennisfötin sín svo hægt væri að skiptast á að dæma og spila. Undanfarin ár hefur það orðið algengara að dómarateymi leiksins sé einn stóldómari og einn línudómari. Sá línudómari vinnur með því að dæma einliða- og/eða tvíliðaleikslínuna sem er lengst frá stóldómaranum ásamt mið uppgjafa línunni, því æfðum við mest þannig. Svo var æft að dæma uppgjafalínuna og tækni sem væri ráðlegt að nota í það.

Upphaflega voru þátttakendur svolítið feimnir að láta heyra í sér þegar þau voru að kalla “út” en það heyrðist mjög vel í þeim í lok námskeiðsins. Þetta er áhugasamur hópur af ungu tennis fólki sem er að æfa og keppa, hlakka mikið til að hjálpa þeim dæma á næsta tennismóti. – Raj K. Bonifacius, kennari og ITF dómari