“Bombastic Slay” 2-1 sigur á móti San Marínó í BJK Cup

Íslenska Kvennalandsliðið fór með 2-1 sigur af hólmi gegn San Marínó í umspili um 9.sætið á Heimsmeistaramótinu í liðakeppni sem fram fer í Skopje, höfuðborg Makedóníu.
Anna Soffía Grönholm spilaði nr.2 einliðaleikinn fyrir hönd Íslands gegn Talitu Giardi frá San Marino. Anna náði ekki að nýta sénsana í fyrra settinu og missti það frá sér 6-3. Anna kom þó tvíefld til baka og var hársbreidd frá því að taka annað settið en tapaði í æsispennandi oddalotu 7-6 (7-4 í oddalotunni).  Sofia Sóley Jónasdóttir spilaði nr.1 einliðaleikinn gegn Silviu Alletti. Sofia byrjaði ekki nógu vel og lenti 4-1 undir í fyrsta setti og tók þá 10 mínútna „medical timeout“ vegna tognunar á innra læri. Við vitum ekki enn hvað sjúkraþjálfarinn gerði en sofia kom tilbaka á völlinn og vann næstu 8 lotur í röð og breytti stöðunni úr 1-4 í 6-4,  3-0. Hún lokaði svo leiknum 6-4 6-2 með frábærum tennis.  Anna Soffía og Sofia Sóley kepptu tvíliðaleikinn saman gegn þeim Talitu Giardi og Silviu Alletti. Þar sem staðan var 1-1 eftir
einliðaleikina var tvíliðaleikurinn hreinn úrslitaleikur um 9.sætið. Anna og Sofia mættu vel gíraðar inn í tvíliðaleikinn og tóku fyrsta settið tiltölulega auðveldlega 6-3 eftir að hafa leitt 4-1 í byrjun setts. Seinna settið var æsispennandi og aðeins sveiflukenndara og liðin skiptust á að leiða settið. Settið endaði svo 6-6 og við tók oddalota þar sem stelpurnar héldu haus, fóru á kostum og kláruðu settið 7-6 (7-3 í oddalotunni). Frábær sigur hjá íslenska liðinu!!!!
Íslenska liðið tók því 9.sætið á mótinu og verður að teljast hinn fínasti árangur miðað við styrkleika mótsins.

ÁFRAM ÍSLAND!!!!!!