Sumarferð unglinga til Bosníu

Blandaður hópur 16 ára og yngri úrvalshópa TFK, TFG, og BH ferðaðist ásamt Jóni Axel Jónssyni landsliðsþjálfara og þremur foreldrum til Banja Luka í Bosníu Herzegovinu í sumar, dagana 15. – 29. júlí.

Um var að ræða æfingaferð í samvinnu við serbneska Tennissamband Bosníu sem tók á móti okkur á flugvellinum í Zagreb í Króatíu og flutti okkur yfir til Banja Luka í Bosníu Herzegovinu, höfuðborgar serbneska hluta Bosníu.

Fyrstu dögunum eyddum við í að venjast leirvöllunum, sem eru ávallt erfiðir viðureignar. Síðan byrjuðu æfingaleikirnir sem voru skipulagðir af Dusko Lepir, landsliðsþjálfara Bosníu.Eftir fyrstu fjóra dagana ferðaðist hópurinn saman á ströndina í Makarska í Króatíu þar sem æfingabúðir okkar héldu áfram ásamt afslöppun á ströndinni þar sem hópnum var þjappað saman. Þegar tilbaka var haldið var flestum spilurum eldri en 12 ára komið fyrir hjá fjölskyldum, þ.e.a.s. hjá krökkunum sem æfðu hjá klúbbnum. Yngri spilarar bjuggu á „Hotel Camel“ ásamt foreldrum (Ingvari, Nínu Margréti og Júlíönu) sem léku hlutverk aðstoðarþjálfara og aðstoðarfararstjóra í ferðinni og eiga þau mikið hrós skilið fyrir frábært starf.

Íslensku krakkarnir stóðu sig frábærlega þegar á heildina er litið, enda var ekkert gefið eftir í baráttunni við bosnísku krakkana, sem voru að sjálfsögðu bæði vanari leirvöllunum og mun reynslumeiri keppendur.

Það má til gamans geta að aðal sjónvarpsstöðin í Bosníu mætti á svæðið og tók viðtal við okkur ásamt upptöku af æfingum okkar. Einnig komu greinar í helstu dagblöðum landsins um samstarf Íslands og Bosníu í tennisheiminum.

Ferðin gekk frábærlega og vonandi verður hægt að endurtaka leikinn einhvern tímann á næstunni. Við höfum einnig boðið þeirra krökkum að heimsækja okkur og taka þátt í Evrópumótinu í byrjun næsta sumars.

Vonandi er þetta byrjun að skemmtilegu samstarfi milli Íslands og Bosníu í komandi framtíð.