Birkir tennisleikari ársins í miðaustur Ameríku

Birkir spilar númer eitt fyrir lið sitt Graceland University

Birkir Gunnarsson, núverandi Íslandsmeistari, var að ljúka sínu fyrsta tímabili í amerísku NAIA háskóladeildinni um helgina. Hann spilaði fyrir Graceland University í Iowa og lék sem tennisleikari nr. 1 fyrir hönd skólans og lék því við bestu spilara hverju sinni. Birkir átti góðu gengi að fagna og var valinn tennisleikari ársins hjá HAAC samtökunum sem eru samtök 10 háskóla í miðaustur Ameríku. Birkir er rankaður nr. 11 í einliðaleik af yfir 500 spilurum í NAIA deildinni og nr. 5 í tvíliðaleik.

Graceland skólinn komst í úrslitakeppnina sem kallast „ Nationals “ vestra, þar sem leikið er með útsláttarfyrirkomulagi og sigraði Lindenwood University Belleville í fyrstu umferð 5-0 en varð síðan að játa sig sigraða 5-1 í annarri umferð af Georgia Gwinnet háskóla sem er rankaður nr. 2 í NAIA deildinni í Ameríku. Birkir og félagi hans sigruðu í tvíliðaleik. Fróðlegt verður að fylgjast með Birki á næstu leiktíð.