Anna Soffia og Vladimir efnilegustu tennisspilarar 2013 og fengu verðlaunin afhend á lokahófi Íslandsmóts innanhúss

Íslandsmeistarar innanhúss 2014, Rafn Kumar og Anna Soffia sem var valin efnilegasta tenniskona ársins 2013

Anna Soffia Grönholm og Vladimir Ristic, sem bæði eru í Tennisfélagi Kópavogs, voru valin efnilegustu tennisspilarar ársins 2013 og fengu afhend verðlaunin í gær á verðlaunaafhendingu og lokahófi Íslandsmóts innanhúss.

Anna Soffia stóð sig mjög vel á árinu 2013. Hún varð  Íslandsmeistari innan- og utanhúss í  meistaraflokki kvenna tvíliða og 14 ára og yngri einliða auk þess að verða Íslandsmeistari innanhúss í 18 ára og yngri tvíliða. Hún varð líka í öðru sæti á Meistaramótinu og Íslandsmóti innan- og utanhúss í meistaraflokki kvenna einliða. Síðastliðið sumar tók hún þátt í Ólympíuleikum æskunnar í Hollandi fyrir Íslands hönd, keppti fyrir þýskt tennisfélag og endaði  í öðru sæti á Stigalista Tennissambandsins. Þetta er í annað skipti sem Anna Soffia fær þessi verðlaun, en hún fékk þau einnig árið 2011.

Vladimir Ristic var valinn efnilegasti tennismaður ársins 2013

Árið 2013 var mjög gott hjá Vladimir sem keppti í fyrsta sinn á Davis Cup, heimsmeistaramóti karlalandsliða, fyrir Íslands hönd, og átti góðan leik á móti besta leikmanni Möltu. Hann var einnig í 18 ára og yngri landsliði Íslands sem fór til Slóvakíu og átti góðan leik á móti besta U18 spánverjanum sem var þá númer 1600 í heiminum. Hann keppti á móti í Danmörku og Serbíu  og endaði árið nr. 4 á StigalistaTennissambandsins. Þetta er annað árið í röð sem Vladimir er valinn efnilegasti tennismaðurinn og í þriðja skiptið sem hann fær þessi verðlaun en hann fékk þau fyrst árið 2010.

Íslandsmeistarar innanhúss 2013

Hægt er að sjá lista hér yfir efnilegasta tennismann og efnilegustu tenniskonu ársins frá því að byrjað var að veita þau verðlaun árið 2003.

Verðlaunasæti fyrir Íslandsmót innanhúss árið 2013 í öllum flokkum má sjá hér.