Íslandsmóti utanhúss lauk í dag með úrslitaleikjum í meistaraflokki karla og kvenna. Anna Soffia Grönhölm og Rafn Kumar Bonifacius urðu í dag Íslandsmeistarar utanhúss en þau voru bæði að hampa þeim titli í fyrsta skipti.
Anna Soffia Grönholm úr Tennisfélagi Kópavogs sigraði Hjördísi Rósu Guðmundsdóttur sem leikur fyrir Badmintonfélag Hafnafjarðar í úrslitaleik kvenna. Anna Soffia sigraði örugglega í tveimur settum, 6-1 og 6-0 og náði þar með í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil utanhúss í meistaraflokki kvenna en Hjördís Rósa hefur sigrað síðastliðin tvö ár. Anna Soffia varð tvöfaldur Íslandsmeistari í meistaraflokki þar sem hún sigraði einnig í tvíliðaleik kvenna ásamt Hjördísi Rósu. Þær sigruðu Sofiu Sóley Jónasdóttir og Söru Lind Þorkelsdóttir 6-2 og 6-1. Auk þess var hún þrefaldur Íslandsmeistari í barna- og unglingaflokkum þar sem hún sigraði í einliðaleik 16 ára og yngri og 18 ára og yngri og í tvíliðaleik í 18 ára og yngri. Frábær árangur hjá þessari ungu og efnilegu tenniskonu.
Í úrslitaleik karla spilaði Rafn Kumar Bonifacius sem leikur fyrir Hafna- og Mjúkboltafélag Reykjavíkur á móti, Íslandsmeistara síðastliðna þriggja ára, Birki Gunnarsson sem leikur fyrir Tennisfélag Kópavogs. Rafn Kumar sigraði í tveimur settum, 6-2 og 6-2 og landaði þar með sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli utanhúss í meistaraflokki karla. Rafn Kumar var tvöfaldur Íslandsmeistari þar sem hann sigraði einnig í tvíliðaleik karla ásamt föður sínum Raj K. Bonifacius úr Tennisdeild Víkings. Þeir sigruðu Egil Sigurðsson og Samuel F. Úlfsson, sem spila báðir fyrir Tennisdeild Víkings, 6-2 og 6-1.
Í tvenndarleik urðu Birkir Gunnarsson úr Tennisfélagi Kópavogs og Hera Björk Brynjarsdóttir úr Tennisdeild Fjölnis Íslandsmeistarar. Þau sigruðu Önnu Soffiu Grönholm og Jón Axel Jónsson, bæði úr Tennisfélagi Kópavogs, í úrslitaleiknum 6-3 og 6-4.
Íslandsmeistarar allra flokka má sjá hér.
Öll nánari úrslit má sjá hér fyrir neðan.