Bragi Leifur Hauksson formaður tennisdeildar Þróttar andaðist 20. júní sl. Hann verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag, fimmtudaginn 13. júlí kl. 13.
Bragi hóf ungur að leika tennis á Íslandi eftir að hafa kynnst íþróttinni á erlendri grundu. Hann var einkar liðtækur tennisleikari og úr augum hans skein áhugi og ástríða fyrir íþróttinni. En áhugi hans náði lengra. Hann vildi sinna brautargengi tennis og byggja upp íþróttina á Íslandi. Þar sem tennis var annars vegar var Bragi ávallt nálægur og hann var ákaflega fróður um allt sem snýr að íþróttinni. Gaman var að ræða við hann um helstu tennismeistara heimsins allt frá miðri síðustu öld. Hjá Braga komu menn ekki að tómum kofunum.
Bragi var meðlimur í stjórn Tennissambands Íslands óslitið í 16 ár. Þar reyndist þekking hans á íþróttinni ákaflega vel. Ekki sakaði að Bragi var skarpgreindur og átti auðvelt með að setja sig inn í mál hverju sinni, hann hafði mikla réttlætiskennd og gætti vel að hagsmunum allra. Hann barðist m.a. fyrir því að byggð yrði tennishöll í Reykjavík og tíminn mun leiða í ljós hvenær sú verður raunin.
En Bragi var ekki aðeins meðlimur í stjórn Tennissambands Íslands heldur var hann einnig framámaður í tennisdeild Þróttar. Framlag hans þar er ómetanlegt. Margir muna eftir hvatningu hans til tennisfólks að mæta og spila á völlum Þróttar í Laugardalnum: „ Gott veður í dag, allir verða að koma og spila “ hljómaði frá honum. Með Braga spilaði jafnan góður hópur fólks, karlar, konur, ungir sem aldnir. Nýverið sá hann um vel heppnaðar kynningar fyrir skólakrakka úr hverfinu og einnig muna menn eftir dugnaði hans við að byggja upp starfsemi tennisdeildarinnar. Veðrið leikur vellina stundum grátt og þörf er á dugnaðarforki eins og Braga til þess að viðhalda þeim og gera þá betri. Braga verður sárt saknað á tennisvöllum Þróttar í Laugardalnum.
Bragi átti stutt að sækja listhneigðina og hafði sérlega gaman að sígildri tónlist. Ánægjulegt var að heimsækja hann á Eyrarbakka í hús hans þar þegar hann varð sextugur. Þar hittum við fyrir nokkra af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar sem settu svip sinn á veisluna. Bragi var hrókur alls fagnaðar og sýndi okkur húsið sitt sem honum þótti svo vænt um, enda eitt elsta og fallegasta hús bæjarins.
Þótt spaðinn sé kominn á hilluna þá gleymum við vinirnir ekki góðum dreng sem lagði meira af mörkum til tennisíþróttarinnar á Íslandi en flestir aðrir. Nánustu aðstandendum Braga vottum við okkar dýpstu samúð.
Fyrir hönd Tennissambands Íslands
Gunnar Þór Finnbjörnsson