Fundur formanna með stjórn TSÍ

Þann 15. maí síðastliðnn hélt stjórn TSÍ kvöldverðarfund með formönnum tennisfélaganna til að ræða nokkur mál sem brenna á okkur öllum. Fulltrúar TFK, TFG, Fjölnis, Þróttar, Víkings og HMR sátu fundinn.

Fyrsta mál á dagskrá var hvort TSÍ ætti að útvíkka starfsemi sína sem spaðasamband og bjóða padel og/eða pickleball til samstarfs eins og þegar hefur verið gert sumstaðar í nágrannlöndunum. Málið var rætt vítt og breitt en á endanum voru allir sammála um að leggja hugmyndina á hilluna þar til þessar íþróttir hljóta viðurkenning innan ÍSÍ.

Næsta mál var að fara yfir stefnumótunarskjalið sem fyrst var kynnt til sögunnar á Tennisþingi í apríl. Almenn ánægja með verkefnið en gerðar nokkrar minniháttar breytingar í fullu samráði allra fundarmanna. Lokaútgáfa verður birt á vef TSÍ innan tíðar.

Þriðja málið var að ræða ástand útivalla á höfuðborgarsvæðinu sem margir hverjir eru illa eða ekki spilanlegir. Félögin voru hvött til að gera gangskör til lagfæringa og TSÍ lýsti sig reiðubúið til aðstoðar hvernig sem hægt væri að leggja lóð á vogarskálarnar. Ákveðið að gera kort af öllum völlum í GoogleMaps og mun stjórn TSÍ klára það verkefni.

Þetta var í annað sinn sem stjórn hittir formennina í slíkum vinnufundi sem stefnt er að því að halda árlega.