Tennisspilari mánaðarins: Ragna Sigurðardóttir, feb24′

Tennisspilari mánaðarins í febrúar er hún Ragna Sigurðardóttir. Ragna er 31 árs og starfar sem læknir á Landsspítalanum og er varaþingmaður og fyrrum borgarfulltrúi. Ragna segir frá því að tennis sé hennar helsta áhugamál utan vinnu og félagsstarfa en hún byrjaði að æfa tennis þegar hún var 12 ára gömul. Aðspurð hvernig það kom til sagði Ragna: ,,Ég hafði séð Mariu Sharapovu keppa á Wimbledon (það ár vann hún Wimbledon aðeins 17 ára gömul). Ég spurði foreldra mína hvort ég mætti byrja að æfa tennis þar sem ég hafði hætt í flestum íþróttum fram að því, og það endaði endaði með því að mamma skutlaði mér einu sinni í viku á tennisæfingar í úthverfi hálftíma frá heimili okkar í Madison, Wisconsin. Í kjölfarið eignaðist ég tvær góðar vinkonur sem æfðu tennis líka og við fórum á æfingar saman þangað til ég flutti til Íslands 15 ára gömul og byrjaði að æfa í Tennishöllinni. Ég hætti að æfa tennis þegar ég byrjaði í háskóla og í stúdentapólitík því lítill tími gafst í það, en byrjaði aftur í Covid og sé ekki eftir því!‘‘

Hvað varðar uppáhalds augnablikið á tennisferlinum sagði Ragna frá því að henni hafi alltaf fundist erfitt að keppa þegar hún var yngri ,, ég stressaðist upp og „choke-aði“ þegar ég var að keppa þó ég væri kannski miklu betri á æfingum en þegar kom síðan að keppni. Þegar ég var í menntaskóla ákvað ég að reyna að hrista þetta af mér með því að keppa eins mikið og ég gat, ætli uppáhalds augnablikið hafi ekki verið þegar ég byrjaði að spila jafn vel í keppni og á æfingum – ég held að það hafi verið í leik á móti Eydísi sem var með mér á æfingum sem unglingur. Ég vann ekki leikinn en spilaði betur en ég hafði gert fram að því og eitthvað „klikkaði“ loksins í hausnum á mér í þeim leik og ég náði að fókúsera og spila vel.‘‘

Aðspurð um skemmtilegustu tennisferðina sína talaði Ragna um ferð til Mónakó árið 2023 ,,Við fórum ótrúlega skemmtilegur hópur út á skemmtimót og enduðum í 2. sæti í kvennaflokki í tvílíða. Við fórum í æfingabúðir í Cannes á undan með frábærum þjálfurum og svo var ferðalagið sjálft ótrúlega skemmtilegt.‘‘

Ragna æfði bæði með TFK og Fjölni þegar hún var yngri en í dag æfir hún með Fjölni – bæði í fullorðinstímum og með ,,the juniors‘‘ eins og hún kallar þá sem Ragna segir vera alveg einstaklega skemmtilegt, bæði að fylgjast með og spila við upprennandi stjörnur í tennis. Ragna minntist einnig á að stundum fengi hún að taka með þeim þrek. Aðspurð um fyrsta þjálfarann hennar segir Ragna ,, Anna Podolskaia er líklegast sú sem ýtti mér mest áfram þegar ég var yngri, svo voru Andri Jóns, Jón Axel, Carola og Raj öll að þjálfa mig á yngri árum og öll frábær á sinn hátt og þjálfa mismunandi eiginleika hjá manni.‘‘

Ragna sagði frá því að hreyfingin væri það besta við tennis en hún hefur einnig gaman að því að bæði þurfi snerpu og úthald, en líka ákveðna hugsun og strategíu sem gerir keppni svo skemmtilega. Hvað varðar markmið Rögnu í tennis sagði hún frá því að hún hafi stefnt að því að vinna 30+ mót í einliða- og tvíliðaleik sem hefur tekist – ,,en ekki alltaf‘‘ bætir hún við. Ragna velti því loks upp hvort að næsta markmið væri ekki bara að vinna Íslandsmeistaramótið í 30+. Ragna tók loks fram að hún mældi með fyrir alla sem hafa áhuga á tennis að prófa – ,,það er aldrei of seint!‘‘.

       

Eitt ráð til að vera betri í tennis: Æfa, æfa, æfa. Og æfa að keppa.

Uppáhalds skot eða secret weapon: Mér finnst eiginlega skemmtilegast að svara seinni uppgjöf hjá andstæðingi niður línuna og fara svo að netinu til að klára stigið.

Uppáhalds meðspilari: Ætli það sé ekki Sigga Sigurðar, tennis „systir“ mín og æfingafélagi! Það var líka einstaklega gaman að keppa með Nicol Chakmakova úti í Mónakó.

Uppáhalds undirlag: Ég spilaði á grasi í fyrsta sinn síðasta sumar þegar við Sigga og Irka fórum út á Wimbledon og spiluðum síðan á tennisklúbbi systur Irku í London. Það er engu því líkt!

Uppáhalds tennisspilari? Ég hef alltaf verið mikill Nadal aðdáandi en er líka mjög hrifin af Aryna Sabakenka, af þeim sem eru ungir og upprennandi er Alcaraz líka í uppáhaldi. Svo er ég alltaf þakklát Sharapovu fyrir að koma mér í tennis þó hún sé löngu hætt.