Nýr formaður kosinn á ársþingi TSÍ

Ársþing Tennissambands Íslands var haldið þriðjudaginn 25. apríl sl. í fundarsal Íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal.  Alls mættu 23 einstaklingar á ársþingið, 22 frá tennisfélögum og einn fulltrúi frá ÍSÍ, Valdimar Leó Friðriksson  sem ermeðstjórnandi í framkvæmdastjórn ÍSÍ, en hann ávarpaði einnig þingið.  Þingforseti var Indriði H. Þorláksson, en hann stýrði líka ársþingi TSÍ á síðasta ári.
Uppfærð Afreksstefna TSÍ var kynnt og samþykkt á þinginu og mun hún gildar til næstu fimm ára eða frá árinu 2023 til ársins 2027.

Nýr formaður var sjálfkjörinn, Magnús Ragnarsson, þar sem fráfarandi formaður, Hjörtur Þór Grjetarsson, gaf ekki kost á sér áfram og ekkert mótframboð barst.  Tvö voru kjörin í stjórn til tveggja ára að þessu sinni; Raj Bonifacius og Soumia (Mia) Georgsdóttir, sem kemur ný inn í stjórn.  Þrjú voru kjörin í varastjórn; Andri Jónsson, sem kemur nýr inn, Carola M. Frank og Steinunn Garðarsdóttir.
Á síðasta ársþingi TSÍ voru tvö kjörin í stjórn til tveggja ára; Gunnar Finnbjörnsson og Aleksandra Babik sem sitja áfram til eins árs.

Þetta er í fyrsta skipti í fjölda ára sem kjósa hefur þurft á milli einstaklinga í stjórn og varastjórn og var hún mjög spennandi þar sem mjótt var á mununum.

Þeim Hirti Þór Grjetarssyni og Braga Leifi Haukssyni, fráfarandi stjórnarmönnum, var svo að lokum þakkað fyrir vel unnin störf á liðnum árum í þágu tennisíþróttarinnar en báðir hafa setið stjórn TSÍ í fjölda ára og staðið sig vel!