Davis Cup – Síðasta Viðureignin

Síðasta viðureign karlalandsliðsins á Davis Cup fór fram á laugardaginn en þar þurfti íslenska liðið að lúta í lægra haldi fyrir Maltverjum sem unnu tvær af þremur viðureignum dagsins.

Rafn Kumar steig fyrstur á stokk gegn Alex Degabriele. Rafn lenti þremur lotum undir Degabriele í byrjun leiks en náði að vinna sig til baka og sigra fyrsta sett dagsins í bráðabana 7-5. Í seinna settinu tók Rafn algjöra stjórn á leiknum og vann fyrstu fimm loturnar hratt og örugglega. Degabriele gafst þó ekki upp og náði að hafa næstu þrjár loturnar en að lokum var Rafn Kumar of sterkur fyrir Maltverjan unga og kláraði leikinn 6-3 í seinna setti.

Næstur var Egill Sigurðsson en hann keppti við Matthew Asciak, reynslumikinn leikmann sem kleif hæst í 887. sæti á heimslista atvinnumanna (ATP). Asciak spilaði virkilega öruggan leik og tókst að gera Agli erfitt fyrir en leikurinn fór 6-1, 6-0.

Úrslitin réðust því á tvíliðaleiknum sem þeir Daníel Siddal og Rafn Kumar kepptu við Matthew Asciak og Alex Degabriele. Íslenska liðið byrjaði rosalega vel og hafði betur í fyrsta settinu 6-4. Mikil spenna var í loftinu og brutust nokkrum sinnum út mikil rifrildi milli liðsmanna Möltu og dómara en Maltverjum tókst að vinna annað settið 4-6. Í úrslitasettinu byrjuðu Maltverjar að spila betur og meðbyrin virtist allur þeirra megin, að lokum höfðu þeir betur og tóku lokasettið 1-6.

Íslenska liðið endaði í 3-4. sæti riðilsins ásamt gestgjöfunum frá Aserbaísjan en Malta og San Marínó enduðu í efstu tveimur sætunum og náðu þar með að vinna sig upp um styrkleikaflokk fyrir Davis Cup 2023. Strákarnir okkar sýndu mikla leikni, þeir gáfu allt sem þeir áttu í þessum leikjum og geta verið mjög stoltir með frammistöðu sína. Saman hafa þeir keppt níu leiki á þremur dögum og eiga skilið góða hvíld eftir frábært mót hér á Davis Cup 2022 í Baku.

 

Takk fyrir okkur!