Davis Cup – fyrsti pistill frá Azerbaijan.

Íslenska karlalandsliðið í tennis keppir á Davis Cup, heimsmeistaramóti landsliða í tennis, í Aserbaísjan í þessari viku.

Liðið skipa Rafn Kumar Bonifacius, Egill Sigurðsson og Daníel Bjartur Siddal.

 

Landsliðið féll úr þriðja styrkleikaflokki mótsins niður í þann fjórða á síðasta ári og er nú mikið í húfi fyrir íslensku leikmennina að vinna sig aftur upp um flokk. Liðsmenn eru því í baráttuhug og byrjaðir að æfa hörðum höndum á keppnisvöllunum í Baku, höfuðborg Aserbaísjan.

 

Ísland er í riðli með Albaníu, Andorra, Kósóvó, Möltu og San Marínó, ásamt gestgjöfunum frá Aserbaísjan.

 

„Vellirnir hérna eru mjög hraðir og veðurskilyrðin nokkuð krefjandi, það á að ná 35 gráðum seinna í vikunni og mikill raki. Samt sem áður er mikill vindur hérna við Kaspíahafið sem er gott fyrir okkur, enda búnir að æfa í vindinum á útivöllunum í Fossvogi í allt sumar.“ segir Rafn Kumar.

 

Liðið spilar sína fyrstu leiki á miðvikudaginn og mótinu lýkur á laugardag. Hægt er að fylgjast með úrslitum leikja á www.daviscup.com