Tennisfólk og stigameistarar ársins 2020

Í gær var haldin verðlaunaafhending vegna Tennisfólk og Stigameistarar TSÍ 2020 uppí Tennishöllinni. Gunnar Bragason frá ÍSÍ og Hjörtur Þór Grétarsson formaður TSÍ sáu um afhendinguna.

Í kjöri Tennissambands Íslands og Landsliðsþjálfara um val á Tennismanni og Tenniskonu ársins 2020 voru Egill Sigurðsson (Víking) og Sofía Sóley Jónasdóttir (Tennisfélag Kópavogs) valin.

Egill Sigurðsson er tuttugu og tveggja ára gamall og eini Íslendingurinn sem komist hefur á heimslista Alþjóða tennissambandsins í ár, nr. 1.648 í einliðaleik. Egill keppti í þrettán atvinnumótum í Egyptalandi, Hollandi, Rúmeníu, Spáni, Túnis og Tyrklandi og vann sex leiki – fjóra þeirra á móti leikmönnum á heimslistanum. Hann var líka sigurvegari Meistaramóts TSÍ í meistaraflokki karla í einliðaleik. Þetta er annað árið í röð sem Egill er valinn Tennismaður ársins og er hann fyrirmyndar íþróttamaður jafnt innan vallar sem utan.

Sofía Sóley Jónasdóttir er átjan ára gömul og sigraði sterkasta mót hérlendis í ár – Íslandsmót Utanhúss, í meistaraflokki kvenna einliðaleik. Sofía Sóley vann einnig Íslandsmeistara titilllinn í liðakeppni meistaraflokks kvenna með Tennisfélagi Kópavogs núna í sumar ásamt að vera í öðru sæti á Meistaramóti TSÍ í meistaraflokki kvenna einliðaleik. Er þetta í fyrsta sinn sem Sofía Sóley er valin Tenniskona ársins og er hún fyrirmyndar íþróttamaður jafnt innan vallar sem utan.

Stigameistarar TSÍ 2020 voru Sofía Sóley Jónasdóttir (Tennisfélagi Kópavogs) og Raj K. Bonifacius (Víking)
Stig eru reiknuð út samkvæmt stigalista TSÍ og að ári loknu skulu stig 8 bestu móta hvers keppenda reiknuð saman og stigameistari telst sá sem hefur fengið flest stig úr þeim samanlagt. Verði 2 keppendur jafnir telst sá sigurvegari sem hefur sigrað fleiri mót. Listann má finna á heimasíðu Tennissambands Íslands (karlarkonur)