Björn Borg er staddur hér á landi ásamt konu sinni til að fylgjast með Leo syni sínum sem tekur þátt í tveimur tennismótum í Tennishöllinni í Kópavogi.
Á blaðamannafundi Tennissambands Íslands í dag gaf Björn sér tíma til að svara spurningum fjölmiðla.
Að sögn Björns er skortur á innanhússvöllum farinn að hindra frekari framþróun tennis á Íslandi. Ísland þarf einfaldlega að eignast fleiri innivelli. Til að standast samanburð við Svíþjóð þyrftu að vera nokkrir tugir innivalla. Aðstaðan í Tennishöllinni er samt til fyrirmyndar og spennandi að vita að Kópavogsbær er jákvæður gagnvart stækkun hennar. Mikilvægt er líka að fá fleiri hallir og ekki síst í Reykjavík, þar sem beðið hefur verið eftir innivöllum í þó nokkurn tíma.
Þetta er þriðja heimsókn tennismeistarans Björns Borg til landsins, en hann var hér á ferðinni á níunda áratugnum til að kynna fatamerki sitt.
Björn Borg fannst líka gaman að því að íslenskur leikari, Sverrir Guðnason, leikur hlutverk hans í kvikmynd sem verið er að gera um eftirminnilega baráttu hans við skaphundinn John McEnroe.