Tvö evrópumót voru haldin í Tennishöllinni Kópavogi um páskana. Keppt var í einliða- og tvílaðaleik hjá stráka- og stelpuflokkum í 14 ára og yngri og 16 ára og yngri. Mikill fjöldi tók þátt í mótinu og komu keppendur allstaðar að frá Evrópu og víðar eða frá um 20 löndum.
Anton Magnússon tók þátt í einliða- og tvíliðaleiksflokk 16 ára og yngri stráka en hann sigraði í báðum flokkum. Þetta er frábær árangur en hann bar sigur úr bítum gegn 30 keppendum frá 13 löndum.
Anton mætti Til Willem Frentz frá Þýskalandi í úrslitum í einliðaleik og fór leikurinn 6-4 6-3. Í tvíliðaleik spilaði Anton með Pólverjanum Makary Adamek á móti Ítalanum Alberto Giuliani og samlanda sínum Federico Lucini. Anton hefur búið alla ævi á Spáni og æfir og keppir þar en æfir og keppir með Tennisfélagi Kópavogs þegar hann er á landinu. Anton er eins og er í 164 sæti á stykleikalista Evrópska Tennissambandsins fyrir 16 ára og yngri.
Þátttakendur á mótinu gistu flestir á Hótel Smára og í skammtímagistingu í gegnum Airbnb víðs vegar í Kópavoginum. Þrír alþjóðlegir atburðir verða haldnir í Tennishöllinni til viðbótar í sumar en þeir eru Kópavogur Open í lok maí, Tennishöllin Open í byrjun júní og Norrænu Sjúkrahúsaleikarnir í júní. Slíkum alþjóðlegum viðburðum hefur farið ört fjölgandi síðustu ár og eru sífellt fleiri ferðamenn sem leggja leið sína til
landsins vegna íþróttarinnar. Það verður því nóg að gera í Tennishöllinni í sumar þar sem nóg er á döfinni
fyrir íslenska, jafnt sem erlenda tennisspilara og áhugamenn.