Karlalandsliðið er komið til San Marínó þar sem það keppir á Davis Cup í 3.deild Evrópuriðils en þetta er sjöunda árið í röð sem Ísland keppir í þeim riðli. Þetta er tuttugasta árið í röð sem Ísland keppir á Davis Cup sem hefur alltaf spilað annað hvort í þriðju eða fjórðu deild.
Íslenska liðið að þessu sinni skipa Birkir Gunnarsson, Magnús Gunnarsson, Rafn Kumar Bonifacius og Vladimir Ristic þar sem Birkir er spilandi fyrirliði. Birkir og Magnús, sem eru bræður, eru báðir að keppa í sjöunda skipti á Davis Cup en Rafn Kumar og Vladimir í annað skiptið.
Þrettán þjóðir taka þátt auk Íslands og eru: Albanía, Armenía, Eistland, Georgía, Grikkland, Kýpur, Liechtenstein, Makedónía, Malta, Noregur, Svartfjallaland og San Marínó. Keppt er í þremur þriggja liða riðlum og einum fjögurra liða riðli. Sigurvegarar í hverjum riðli keppa um hvaða tvær þjóðir fara upp í 2.deild á árinu 2015.
Keppni hófst í gær og lenti Ísland í fjögurra liða riðlinum með Georgíu, Möltu og Albaníu.
Ísland spilaði við Möltu í fyrsta leik sínum í gær og tapaði 3-0. Aðstæður voru erfiðar fyrir íslenska landsliðið þar sem var gríðarlega heitt og blanka logn.
Birkir sem spilar númer 4 fyrir Ísland spilaði fyrsta einliðaleikinn á móti Möltumanninum Matthew Asciak sem var eitt sinn númer 900 á heimslistanum og spilar númer 2 fyrir Möltu. Stigin voru oft á tíðum löng og stóð leikurinn yfir í tæpa tvo tíma en Möltumaðurinn hafði betur 6-3 og 6-2.
Í öðrum einliðaleiknum spilaði Rafn Kumar sem spilar númer 3 fyrir Ísland á móti Bernard Cassar Torreganiai sem spilar númer 1 fyrir Möltu. Þetta var hörkuleikur þar sem Rafn Kumar var hársbreidd frá því að sigra. Rafn Kumar vann fyrsta settið 7-5 eftir að hafa lent undir í byrjun leiks. Annað settið var hífjafnt sem Bernard marði 7-6. Rafn Kumar náði sér svo aldrei á strik í þriðja settinu eftir að hafa fengið verk í lærið í byrjun þriðja setts og lokatölur því 7-5, 6-7 og 1-6.
Í tvíliðaleiknum spiluðu Birkir og Vladimir Ristic sem spila númer 4 og 2 fyrir Ísland á móti Bradley Callus og Matthew Asciak sem spila númer 3 og 2 fyrir Möltu. Birkir og Vladimir töpuðu 6-3 og 6-3.
Hægt er að fylgjast með úrslitum frá Davis Cup í riðlinum og úrslitum í beinni.