Birkir og Hjördís Rósa tennisfólk ársins

Hjördís Rósa Guðmundsdóttir og Birkir Gunnarsson hafa verið útnefnd tennisfólk ársins 2014 af stjórn Tennissambands Íslands.

Þetta er í þriðja sinn sem hin 16 ára gamla Hjördís Rósa er kjörin tenniskona ársins. Hún hefur átt góðu gengi að fagna á árinu og er tvöfaldur Íslandsmeistari  utanhúss, bæði í einliða- og tvíliðaleik, í meistaraflokki kvenna. Auk þess varð hún Íslandsmeistari utanhúss  í U-16 og U-18, bæði í einliða- og tvíliðaleik. Hún sigraði á Meistaramótinu 2014 í einliðaleik kvenna þar sem 8 bestu tenniskonur landsins etja kappi á móti hvor annarri. Auk þess sigraði hún þrjú af fjórum stórmótum Tennissambands Íslands á árinu.

Hjördís Rósa keppti í fyrsta skipti fyrir landslið Íslands á heimsmeistaramóti Fed Cup og spilaði á móti Katrinu Sammut sem spilar númer 1 fyrir Möltu. Hjördís Rósa spilaði mjög vel og sigraði örugglega 6-3 og 6-3. Þetta var jafnframt fyrsti sigur Hjördísar í einliðaleik á Fed Cup.

Í tvíliðaleiknum kepptu Hjördís Rósa og Anna Soffia Grönholm á móti Rosanne Dimech og Elaine Genovese sem spila númer 2 og 3 hjá Möltu. Íslensku stelpurnar byrjuðu leikinn mjög vel og komust í 5-3 en Malta náði að jafna 5-5 og unnu síðan settið 7-5. Í seinna settinu spiluðu stelpurnar líka vel en Maltverjarnir leiddu þó allt settið og unnu það 6-4. Þar með sigruðu Maltverjar 2-1.

Hjördís Rósa keppti á Evrópumót U14 og U16 ára sem haldið var í Tennishöllinni í Kópavog, hún  sigraði Elisaveta Vaizova frá Rússlandi 6-2 6-4 í flokki 16 ára og yngri í fyrstu umferð. Hún tapaði svo 6-3 6-3 gegn keppanda sem var rankaður nr. 1 Ekaterina Trashchenko frá Eistlandi.

Birkir Gunnarsson átti góðu gengi að fagna árið 2014 og er kjörin tennismaður ársins þriðja árið í röð. Hann hóf árið með því að sigra á Meistaramóti TSÍ um áramótin síðustu. Þá fór hann til Graceland University í Iowa þar sem hann lék með háskólaliðinu líkt og hann gerði árið áður. Hann lék þar sem leikmaður nr. 1 fyrir hönd skólans á Amerísku NAIA háskóladeildinni. Hann lék 20 leiki fyrir hönd skólans og sigraði í 16 þeirra eða með 80% vinningshlutfall. Í tvíliðaleik lék hann 18 leiki með félaga sínum og sigruðu þeir í 15 þeirra. Í Mið-austur Ameríku var hann rankaður nr. 1 bæði í einliða- og tvíliðaleik og var að loknu tímabilinu valinn tennisleikari ársins bæði í einliða- og tvíliðaleik á svæðinu. Þá var hann valinn í lið ársins í NAIA háskóladeildinni (ITA All-American) og valinn besti tennisleikari Mið-austur deildarinnar (Male player of the year – Central East Region). Að loknu keppnistímabilinu var Birkir rankaður nr. 11 af 550 tennisleikurum deildarinnar. Þá varð Birkir Íslandsmeistari í tennis utanhúss, bæði í einliða- og tvíliðaleik síðasta sumar.

Síðastliðið haust skipti Birkir yfir í Auburn University at Montgomery(AUM) í Alabama en skólinn er með gríðarlega sterkt lið og er 9-faldur NAIA meistari og rankaður nr. 3 í NAIA deildinni núna. Hann keppti fyrir skólann í einliðaleik í svæðiskeppni Suður Ameríku keppninni og endaði í 5-8 sæti af 64 keppendum.

Birkir er stigahæstur á ITN styrkleikalista Tennissambands Íslands og stefnir að því að komast á ATP atvinnumannatúrinn í framtíðinni þar sem þeir bestu spila.