Leikið var til úrslita í meistaraflokki karla og kvenna á Íslandsmóti utanhúss í gær. Birkir Gunnarsson úr Tennisfélagi Kópavogs og Hjördís Rósa Guðmundsdóttir úr Badmintonfélagi Hafnafjarðar vörðu titla sína. Þetta er þriðja árið í röð sem Birkir er Íslandsmeistari og annað árið í röð sem Hjördís Rósa er Íslandsmeistari en hún hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari utanhúss.
Birkir Gunnarsson mætti Rafni Kumar Bonifacius úr Hafna- og Mjúkboltafélagi Reykjavíkur í úrslitaleik karla. Rafn Kumar byrjaði betur og vann fyrsta settið 6-2. Birkir kom sterkur til baka og vann næstu tvö sett 6-2 og 6-1.
Í úrslitaleik kvenna vann Hjördís Rósa sigur á Önnu Soffíu Grönholm úr Tennisfélagi Kópavogs. Hjördís Rósa sigraði örugglega í tveimur settum 6-1 og 6-4.
Í úrslitaleik tvíliðaleiks karla urðu Birkir Gunnarsson og Rafn Kumar Bonifacius Íslandsmeistarar. Þeir mættu Jónasi Páli Björnssyni og Davíð Elí Halldórssyni, báðir úr Tennisfélagi Kópavogs, í úrslitaleiknum og sigruðu örugglega 6-0 og 6-0.
Öll úrslit í Íslandsmótinu má sjá hér fyrir neðan en því lýkur á morgun með verðlaunafhendingu og léttum veitingum kl. 12 í Þróttarheimilinu.