Fyrsti sigur Hjördísar á Fed Cup

Hjördís Rósa sigraði sinn fyrsta einliðaleik á Fed Cup

Ísland mætti Möltu í dag á Fed Cup í síðari leik sínum í riðlakeppninni og tapaði 2-1.

Hera Björk Brynjarsdóttir spilaði fyrsta leikinn á móti Elaine Genovese sem spilar númer 2 fyrir Möltu. Hera spilaði vel en tapaði leiknum 6-1 og 6-1.

Í öðrum leiknum spilaði Hjördís Rósa Guðmundsdóttir á móti Katrinu Sammut sem spilar númer 1 fyrir Möltu. Hjördís Rósa spilaði mjög vel og sigraði örugglega 6-3 og 6-3. Þetta var jafnframt fyrsti sigur Hjördísar í einliðaleik á Fed Cup.

Staðan því 1-1 og ljóst að tvíliðaleikurinn myndi skera úr um hvort liðið færi með sigur af hólmi.

Í tvíliðaleiknum kepptu Hjördís Rósa og Anna Soffia Grönholm á móti Rosanne Dimech og Elaine Genovese sem spila númer 2 og 3 hjá Möltu. Íslensku stelpurnar byrjuðu leikinn mjög vel og komust í 5-3 en Malta náði að jafna 5-5 og unnu síðan settið 7-5. Í seinna settinu spiluðu stelpurnar líka vel en Maltverjarnir leiddu þó allt settið og unnu það 6-4. Þar með sigruðu Maltverjar 2-1.

Á morgun er síðasti leikurinn í riðlakeppninni þar sem Malta og Írland mætast í úrslitaleik um hver sigrar riðilinn. Ísland er í fríi á morgun en spilar um 9.-12. sætið á laugardaginn við Kýpur sem voru í neðsta sæti í sínum riðli líkt og Ísland.

Úrslit í öllum riðlunum má sjá hér.