Iris Staub gerir það gott í Suður-Afríku

Iris æfir og keppir af fullum krafti í Pretoria

Iris Staub, einn fremsti tennisspilari Íslands um árabil, hefur verið að gera það gott í Suður-Afríku.

Iris hefur verið búsett í Suður-Afríku síðastliðið hálft ár þar sem hún er í starfsþjálfun hjá þýsku fyrirtæki sem sérhæfir sig i þróunarsamvinnu. Jafnframt því að sinna starfsþjálfuninni hefur hún verið að æfa og keppa í tennis af fullum krafti í Pretoria, þar sem hún keppir fyrir Belgrave Tennisklúbbinn í liðakeppni.

Fyrir nokkru tók Iris þátt á ITF móti 30 ára og eldri. Hún vann fyrstu umferðina en lenti á móti sterkasta leikmanni Suður-Afríku, Lisa Van Der Riet (30 ára og eldri) í annarri umferð. Iris spilaði mjög vel og var leikurinn mjög jafn en hún laut í lægra haldi að lokum.

Eftir þennan leik var Irisi boðið að spila fyrir Norður-Gauteng í keppni á móti hinum héruðunum í Suður-Afriku. Liðakeppnin samanstendur af 3 karlkyns- og 3 kvenkyns tennisspilurum og þarf hver leikmaður að spila tvo leiki á hverjum degi í heila viku. Liðið hennar Irisar vann keppnina með yfirburðum. Hún vann alla sína leiki en Gautengliðið tapaði aðeins einum leik í keppninni. Þar með tryggði Iris og lið hennar sér Suður-Afríska meistaratitillinn.

Iris hefur verið að fikra sig ofar á styrkleikalista 30 ára og eldri í Suður Afríku og er núna númer 10 á Suður-Afríska listanum. Glæsilegur árangur.