4.stórmóti TSÍ lauk í gær með hörkuspennandi leik milli Raj K. Bonifacius úr Tennisdeild Víkings og Birki Gunnarssyni úr Tennisfélagi Kópavogs. Raj sigraði 6-1, 5-7 og 6-0 í leik sem stóð í eina klukkustund og fimmtíu mínútur.
Raj byrjaði betur í fyrsta setti og var yfir 3-0 en þá vann Birkir sína uppgjafalotu og staðan því 3-1. Raj vann svo næstu 12 af 14 stigum og vann þar með fyrsta settið 6-1 eftir 36 mínútur.
Í öðru setti kom Birkir sterkur inn. Báðir leikmenn héldu sínum uppgjafarlotum þangað til staðan var 3-2 fyrir Birki, þá tókst honum að vinna uppgjafalotu Raj og komst í 4-2. Raj vann svo næstu 8 af 9 stigum og jafnaði 4-4. Síðan unnu báðir leikmenn sínar uppgjafalotur og staðan 5-5. Raj fékk 3 tækifæri til að komast í 6-5 en Birkir vann öll þau stig og það síðasta á frábæran hátt með því að droppa með bakhandarblaki og tókst svo að vinna uppgjafarlotuna sína og komast í 6-5. Næsta lota var mjög jöfn en Birkir vann þá lotu og þar með settið 7-5 eftir 52 mínútur.
Fyrsta lotan í þriðja setti var hnífjafn og tókst Raj að vinna það á jöfnu. Þetta var greinilega mikilvæg lota því Raj náði að halda áfram að vinna næstu 5 lotur og vann þar með settið 6-0 sem tók aðeins 22 mínútur.
Þess má geta að þetta er annað árið í röð sem Raj og Birkir mætast í úrslitaleik á 4 .stórmóti TSÍ. Í fyrra sigraði Raj einnig en þá í tveimur settum, 6-3 og 6-2.
Í þriðja sæti var Rafn Kumar Bonifacius úr Tennisdeild Víkings þar sem Jón Axel Jónsson úr Tennisdeild UMFÁ gaf leikinn.
Í úrslitaleik tvíliða karla sigruðu Bonifacius feðgarnir, Raj og Rafn Kumar þá Birki og Jón Axel í hörku tvíliðaleik, 10-8. Feðgarnir leiddu 8-5 þegar Birkir og Jón Axel björguðu þremur leikboltum og svo björguðu þeir þremur í viðbót þegar staðan var 8-7. Samtals björguðu Birkir og Jón Axel 8 leikboltum í leiknum áður en Raj og Rafn tókst að vinna leikinn eftir 1 klukkustund og 20 mínútur.
Í þriðja sæti voru Hinrik Helgason og Vladimir Ristic með því að sigra Ómar Pál Axelsson og Ragnar Má Garðarson 9-3.
Í einliða og tvíliða kvenna voru sæti ákveðin eftir því hverjir komust lengst í mótinu. Í einliðaleik kvenna var Hjördís Rósa Guðmundsdóttir í 1.sæti, Ragna Sigurðardóttir í 2.sæti og Anna Soffia Grönholm í 3.sæti.
Í tvíliðaleik kvenna voru Anna Soffia Grönholm og Hjördís Rósa Guðmundsdóttir í 1.sæti, Ragna Sigurðardóttir og Sigríður Sigurðardóttir í 2.sæti og Hera Björk Brynjarsdóttir og Sara Ýr Jónsdóttir í 3.sæti.
Nánari úrslit má sjá hér:
ITN Styrkleikaflokkur – einliða
ITN Styrkleikaflokkur – tvíliða
Í mini tennis voru 9 þátttakendur og var það Sofia Sóley Jónasdóttir sem sigraði alla keppendur.