Tap á móti Georgíu á fyrsta keppnisdegi

Andri spilaði tvo leiki í dag

Íslenska karlalandsliðið laut í lægra haldi fyrir Georgíu í dag, 3-0 á fyrsta keppnisdegi Davis Cup í Aþenu.

Raj K. Bonifacius tapaði fyrir Lado Chikhladze 6-3 og 6-3. Andri Jónsson tapaði 6-4 og 6-2 fyrir George Tsivadze. Í tvíliðaleik töpuðu Andri Jónsson og Leifur Sigurðarson fyrir Lado Chikhladze og Irakli Labadze 6-0 og 6-2. Þetta var jafnframt fyrsti leikur Leifs á Davis Cup.

Á morgun keppa strákarnir við Lúxemborg sem hafa yfir mjög sterku liði að skipa. Fremstur þeirra í flokki er Gilles Müller sem er besti tennisleikari sem Lúxemborg hefur nokkurn tímann átt. Hann er atvinnutennisspilari og númer 196 í heiminum í dag. Hann komst í 3. umferð á Ástralska Opna á síðasta ári og undanúrslit á Bandaríska Opna árið á undan. Það verður því mikil áskorun og gaman fyrir strákana að fá að spreyta sig á móti þessum firnasterka spilara.