Ísland þurfti því miður að lúta í lægra haldi fyrir Makedóníu í dag 2-1 í viðureignum. Þrátt fyrir það tókst okkur að knýja fram fyrsta sigurleik okkar í mótinu gegn feykisterku liði Makedóníu í tvíliðaleik sem er frábær árangur hjá stelpunum.
Sofia Sóley spilaði nr. 2 í einliðaleik fyrir Ísland í fyrsta leik dagsins gegn Mariju Elenovu. Leikurinn endaði 6-2 6-1 fyrir Makedóníu, en þrátt fyrir það segir staðan ekki allt þar sem leikurinn var mjög langur og loturnar mjög jafnar en því miður vantaði herslumuninn hjá Sofiu til að ná að loka lotum.
Anna Soffía spilaði einliðaleik nr. 1 gegn Katarinu Marinkovikj í seinni leik dagsins. Hörkuleikur sem endaði 6-4 6-2 fyrir Makedóníu. Leikurinn var mjög jafn þar sem Anna spilaði virkilega vel á köflum og var alls ekki langt frá því að snúa leiknum sér í vil.
Tvíliðaleikurinn stóð þó upp úr í dag hjá Íslenska liðinu þar sem Anna Soffía og Sofia Sóley áttu einhvern besta tvíliðaleik sem sögur fara af hjá Íslenska kvennalandsliðinu þar sem þær áttu algjöran stórleik gegn Mariju Elenovu og Katarinu Marinkovikj. Í fyrsta settinu tókst þeim að bjarga þremur settboltum í röð í stöðunni 5-6 og kláruðu svo tiebreak-ið 7-5. Í seinna settinu lentu þær svo 0-2 undir en spýttu þá í lófana og unnu 5 lotur í röð með hreint út sagt ótrúlega vel skipulögðum og beittum tvíliðaleik. Þær kláruðu svo seinna settið 6-4 og var þar með fyrsti sigur Íslenska liðsins á Fed Cup 2018 að veruleika. Frábær spilamennska í alla staði og mjög verðskuldaður sigur og mikilvægt veganesti fyrir næstu viðureign sem verður gegn sterku liði Armeníu a morgun.