Bikarmóti Tennishallarinnar og TSÍ lauk í dag

Jóla- og bikarmót Tennishallarinnar og TSÍ var haldið í tuttugasta og þriðja sinn í desember. Mótið bauð upp á ótrúlega flotta leiki með okkar besta tennisfólki.


Mótið hófst þann 17. desember á barna- og unglingaflokkum en fullorðins- og meistaraflokkar fóru fram á milli jóla og nýárs. Keppendur komu víða að, en algengt er að tennisfólk leiti heim yfir hátíðarnar og taki þátt í Bikarmóti Tennishallarinnar og TSÍ. Sem dæmi má nefna að bæði Anton og Egill, sem kepptu um fyrsta sætið í meistaraflokki karla æfa og keppa að venju á Spáni.

Meistaraflokkur kvenna

Í meistaraflokki kvenna kepptu þær Hera Björk Brynjarsdóttir frá Fjölni og Anna Soffía Grönholm frá TFK um fyrsta sætið. Sá leikur fór 6-3 6-1, Önnu Soffíu í vil.
Um þriðja sætið kepptu þær Selma Dagmar Óskarsdóttir og Íris Staub, báðar frá TFK. Íris sigraði Selmu 6-1 6-0

Meistaraflokkur karla

Eitt sem hefur komið mörgum á óvart er frammistaða Egils Sigurðssonar og Antons Jihao Magnússonar. Þeir búa báðir á Spáni en hafa verið duglegir að keppa í mótum hjá TSÍ. Anton vann Rafn Kumar Bonifacius í fyrstu umferð mótsins í hörku leik og síðar vann hann Raj í flottum leik. Egill vann svo Birki Gunnarsson í svakalegum 3ja setta leik.  Rafn Kumar og Birkir komust því hvorugur í úrslit.
Í úrslitum í meistaraflokki karla mættust þeir Egill Sigurðsson frá Víking og Anton Magnússon frá TFK, en þetta er í fyrsta sinn sem þeir báðir komast í úrslit í meistaraflokki hér heima. Þeirri viðureign lauk 6-2 6-4 fyrir Agli.

Um þriðja sætið kepptu þeir Birkir Gunnarson hjá TFK og Raj K. Bonifacius. Birkir bar sigur úr býtum gegn Raj en þeirra leik lauk 3-0 þegar Raj gaf leikinn vegna meiðsla.

Fleiri myndir

 

Hægt er að skoða nánari úrslit hér.