Eins og fram hefur komið í fréttum tók aðalstjórn Víkings þá ákvörðun að láta fjarlægja tennisvellina úr Víkinni í vor. Ákvörðunin var byggð á þeim forsendum að fjármunir hafa ekki fengist frá Reykjavíkurborg til að viðhalda völlunum og liggja þeir undir skemmdum.
Þær fréttir hafa nú borist okkur frá ÍTR og stjórn Víkings að í þeim framkvæmdum sem munu fara fram á vallasvæði Víkings í sumar þá verða tennisvellirnir ekki fjarlægðir. Reykjavíkurborg mun laga vellina svo starfsemi Tennisdeildar Víkings geti haldið áfram í sumar og tennisáhugamenn geta stundað áfram tennis í Víkinni. Frekari umræða um stöðu vallanna og framtíð þeirra verður tekin upp síðar. Það er von okkar að sátt náist um uppbyggingu vallanna og að sameiginleg sýn náist um farsæla framtíð þeirra í Víkinni.
Tennisvellirnir í Fossvogi voru lagðir árið 1986 af íbúum Dalsins og öðrum tennisáhugamönnum í sjálfboðavinnu. Verkefnið var fjármagnað af samfélaginu meðal annars með því að labba í hús og safna pening. Fjórir vellir voru lagðir og 10 árum síðar var lagt gervigras á tvo þeirra. Síðar var tennisdeild Víkings stofnuð og sér deildin um rekstur vallanna og skipulagningu starfsins.
Sumarnámskeið eru haldin í Víkinni auk þess sem talsverður fjöldi fólks spila á völlunum sér til skemmtunar. Síðustu ár hefur verið haldið Evrópumót á völlunum í júní og er talsverður fjöldi erlendra spilara og aðstandenda sem koma til landsins í því tilefni. Tennisdeildin hefur ekki fengið fjármagn til að viðhalda völlunum síðan þeir voru lagðir fyrir rúmum tveimur áratugum og er ástand þeirra orðið slæmt. Verkefnið framundan er að leita leiða til að fjármagna enduruppbyggingu vallanna og væri það skemmtilegur möguleiki að það væri með aðkomu styrktaraðila úr íslensku atvinnulífi.
Aðstöðu til að iðka tennis í Reykjavík er mjög ábótavant. Einungis eru 6 útivellir í Reykjavík, fjórir í Víkinni og tveir í Laugardalnum, og allir þarfnast þeir viðhalds. Engin inniaðstaða er í Reykjavík og þurfa Reykvíkingar að sækja æfingar á veturna í Tennishöllina í Kópavogi. Það er ábyrgð íþróttafélaga og í stefnu þeirra flestra að bjóða fjölbreytni í íþróttavali til að höfða til sem flestra.
Tennis er ein vinsælasta íþrótt í heiminum og hér á Íslandi finnum við fyrir auknum áhuga og kröfu um aðstöðu til iðkunar. Tennishöll í Reykjavík er orðin nauðsyn sem bregðast þarf við og forsenda þess að tennisíþróttin geti vaxið.
Formaður Tennisdeildar Víkings, Raj Bonifacius kallaði eftir aðstoð á vefnum Betri Reykjavík og bárust tugir athugasemda frá íbúum Reykjavíkur. Tennisdeild Víkings sárvantar fjármagn frá borginni til að byggja upp og viðhalda völlunum og er þessi vefur vettvangur fyrir borgara til að styðja við þetta mál og koma sínum athugasemdum á framfæri. Þessi stuðningur ásamt þeim símtölum og skrifum sem borist hafa frá stuðningsmönnum tennisíþróttarinnar er gríðarlega mikilvægur og vill Tennisdeild Víkings og Tennissamband Ísland (TSÍ) þakka fyrir þann góða stuðning og óskar öllum gleðilegs tennissumars!
Ásta M Kristjánsdóttir, formaður TSÍ