Íslenska kvennalandsliðið í tennis hélt til Tallins í Eistlandi í morgun þar sem það keppir á Fed Cup í 3.deild Evrópu/Afríku riðils, en Ísland hefur alltaf spilað í þeirri deild. Þetta er í tíunda skiptið sem Ísland sendir lið á Fed Cup en það tók fyrst þátt árið 1996. Ísland hefur ekki sent lið síðan árið 2009 en liðið þurfti að draga sig úr keppni árið 2010 á síðustu stundu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.
Íslenska landsliðið er nánast eingöngu skipað nýliðum að þessu sinni en þrjár af fjórum landsliðskonum Íslands eru að keppa á Fed Cup í fyrsta skipti. Það eru þær Hjördís Rósa Guðmundsdóttir, Anna Soffia Grönholm og Hera Björk Brynjarsdóttir. Auk þeirra skipar liðið hin reynslumikla Sandra Dís Kristjánsdóttir sem er spilandi þjálfari en þetta er í fimmta skiptið sem Sandra Dís keppir á Fed Cup en í fyrsta sinn sem hún er einnig þjálfari.
Liðið mun hafa daginn í dag og á morgun til æfinga en keppt er á hörðum völlum innandyra og því gott fyrir íslensku keppendurna að venjast undirlaginu. Keppni hefst miðvikudaginn 5.febrúar og lýkur laugardaginn 8.febrúar.