Íslenska karlalandsliðið tapaði 3-0 gegn gríðarsterku liði Moldavíu á Davis Cup í dag.
Allir leikmenn íslenska landsliðsins spiluðu í dag. Arnar Sigurðsson og Birkir Gunnarsson spiluðu einliðaleiki á móti númer 1 og 2 hjá Moldavíu. Andri Jónsson og Jón Axel Jónsson spiluðu tvíliðaleik á móti leikmönnum númer 1 og 2 hjá Moldavíu.
Arnar Sigurðsson spilaði fyrsta leikinn á móti næst sterkasta leikmanni Moldavíu Andrei Gorban sem er númer 641 á heimslistanum. Arnar átti mjög erfiðan leik þar sem Gorban fór á kostum og klúðraði varla bolta fyrr en í byrjun á seinna setti. Arnar spilaði virkilega vel í seinna settinu og var alls ekki langt frá því að snúa blaðinu við og koma leiknum í úrslitasett en það tókst ekki að þessu sinni. Lokatölur 6-0 og 6-4 fyrir Gorban.
Í öðrum leiknum tapaði Birkir Gunnarsson á móti sterkasta leikmanni Moldavíu Radu Albot 6-0 6-0 sem er númer 334 á heimslistanum og líklega næst sterkasti leikmaðurinn á öllu mótinu. Birkir átti góða takta en Albot var hreinlega of góður fyrir hann.
Í tvíliðaleiknum töpuðu Jón Axel Jónsson og Andri Jónsson 6-2 6-2 gegn Gorban og Albot, en spiluðu þó mjög vel og óheppnir að næla sér ekki í fleiri lotur þar sem þeir voru vel inn í leiknum allan tímann.
Ísland mun því spila um 5.sætið á morgun gegn Armeníu. Moldavía mun hins vegar spila við Svartfjallaland um laust sæti í 2.deild.