Keppni um sæti fyrir unglingalandslið karla lauk nú um helgina með frábærri spilamennsku fimm einstaklinga. Rafn Kumar Bonifacius og Kjartan Pálsson kepptu ekki um sæti í þetta sinn vegna þess að þeir hafa sýnt fram á mjög góðan árangur síðasta árið. Það voru margir góðir leikir um helgina, enda mikið í húfi fyrir þessa stráka og var gaman að sjá hvernig þeir ekki bara tókust á við keppnina sjálfa heldur einnig pressuna sem henni fylgdi. Því miður þá þurfti Sverrir Bartolozzi að hætta við keppni vegna meiðsla en er hann samt valinn í landslið eftir ITN styrleikalistanum.
Hinrik Helgason gerði sér lítið fyrir og vann alla leikina sína og tryggði sér þannig sæti í landsliðinu á eftir Rafni Kumar og Kjartani. Fjórði maður sem tapaði einungis einum leik var Ástmundur Kolbeinsson. Þeir báðir spiluðu vel í sínum leikjum og sýndu hvers þeir eru megnugir. Næstir á eftir þeim tveim eru Vladimir Ristic, Luis Gísli Rabello og Hinrik Snær Guðmundsson, en sá síðast nefndi er nýliði í hópnum og hefur hann sýnt miklar framfarir síðustu mánuði. Hér má sjá lista yfir unglingalandslið karla.
Andri Jónson landsliðsþjálfari unglinga var ánægður með sína menn eftir helgina. “Það var gaman að sjá góðan tennis og ólíkan tennis um helgina, enda allir þessir strákar ólíkir spilarar. Ég vona að þeir haldi uppteknum hætti á næstu mótum og sýni enn meiri þrautseigju og hæfni í hverjum einasta leik. Það er til mikils að vinna í hverjum leik hvort sem hann er tapaður eða unninn og alltaf hægt að læra eitthvað nýtt,” segir Andri.