Úrslit: Íslandsmótið í tennis

Úrslitaleikir í karla- og kvennaflokki einliða fóru fram á Víkingsvöllunum í Fossvogi í dag. Birkir Gunnarsson lagði Raj Bonifacius í tveimur settum, 6-4 6-0, í karlaflokki og heldur hann því Íslandsmeistaratitlinum sem hann vann í fyrra en þar sigraði hann einnig Raj í úrslitum.

Sofia Sóley Jónasdóttir vann Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki en hún lagði Heru Björk Brynjarsdóttur 6-2 6-4. Sofia átti mjög gott mót. Hún sigraði Önnu Soffíu Grönholm, þáverandi Íslandsmeistara, í undanúrslitum og fór sá leikur 7-5 6-3. Hera Björk hefur einnig stundað tennis að miklum krafti undanfarin ár en hún stundar nám í Valdosta State í Georgíu ríki í Bandaríkjunum og spilar þar fyrir tennisliðið.

Hér eru nokkrar myndir úr mótinu og af keppendum í úrslitaleikjunum.