Dagana 15. – 20. júlí tekur karlalandslið Íslands þátt í Davis Cup, heimsmeistaramóti í tennis. Mótið er haldið í San Marino að þessu sinni og eru 10 þátttökuþjóðir. Meðal þeirra eru Írland, Kýpur, Armenía og Albanía og nokkrar minni þjóðir auk heimamanna. Keppt verður í tveimur riðlum af 5 liðum frá mánudegi til föstudags, en svo er keppt um endanleg sæti á laugardaginn. Þetta stefnir því í langa og strembna viku hjá strákunum.
Landsliðsþjálfari Íslands er Andri Jónsson, en liðið skipa þeir Anton Jihao Magnússon, Birkir Gunnarsson, Daníel Siddall og Egill Sigurðsson. Aðeins Birkir æfir og keppir á Íslandi, þeir Anton og Egill búa á Spáni, en Egill er sá eini með stig á heimslistanum og er nýkominn frá Túnis eftir 7 vikna dvöl og keppni á atvinnumannamótum þar og Daníel keppir í bandarískum háskólatennis. Daníel er að keppa í fyrsta sinn en Birkir er að keppa á Davis Cup í tíunda sinn sem er frábær árangur.
Andri var spurður hvernig staðan er á strákunum eftir ferðalagið og tvær góðar æfingar í gær: „Þetta lítur bara mjög vel út, fengum ágætis drátt þó við vitum að hver leikur og viðureign verður erfiður og mikil barátta. Strákarnir eru í flottu formi og peppaðir í verkefnið. Einnig mjög gaman að fá nýjann leikmann inn, Daníel, sem á gott erindi í liðið og mun styrkja okkur í ár og í framtíðinni. Svo verð ég að hrósa heimamönnum hérna í San Marino fyrir flottar aðstæður og skipulagningu, allt til fyrirmyndar í kringum mótið“.
Fróðlegt verður að fylgjast með gengi íslenska liðsins á mótinu, en hægt er að fylgjast með fréttum af þeim á facebook síðu Tennissambands Íslands, www.facebook.com/tennisiceland.